Síðasti heimaleikur Skallagríms í Lengjubikarnum fór fram í gærkvöldi er Úrvalsdeildarlið ÍR mætti á fjalir Fjóssins í Borgarnesi. Reykvíkingar höfðu yfirhöndina nær allan leikinn utan fyrstu upphafsmínútna leiksins er Borgnesingar leiddu með fáeinum stigum. Sigruðu ÍR-ingar að lokum 92-99.
Þrátt fyrir styrka forsystu Úrvalsdeildarliðsins voru Skallagrímsmenn aldrei langt undan. Aðdáunarvert var að fylgjast með Borgnesingum berjast fyrir því að halda sér inni í leiknum og var ekki að sjá að þar væri að spila lið sem þegar væri fallið úr leik í Lengjubikarnum. Þetta er til eftirbreytni, sérstaklega fyrir 1. deildarliðin í keppninni sem þannig fá vissa eldskírn með því að etja kappi við toppliðin og um leið kærkomna reynslu. Höfðu þeir bláhvítu að jafnaði 8-12 stiga forystu allan leikinn og hleyptu Skallagrímsmönnum ekki nær en fimm stig minnst undir lok leiksins.
Í raun unnu ÍR-ingar leikinn á forskoti því sem þeir náðu í 1. leikhluta en staðan að honum loknum var 19-27 fyrir Breiðhyltinga. Í öðrum leikhlutum var meira jafnfræði með liðunum sem einbeittu sér heldur að sóknarleik fremur en varnarleik. Hátt stigaskor beggja liða í leiknum ber þeirri áherslu vitni. Í liði ÍR-inga voru skeinuhættastir Nemanja Sovic, sem var illur viðureignar sóknarlega, James Bartolotta og hinn snöggi Robert Jarvis.
Atkvæðamestur heimamanna var klárlega Lloyd Harrison sem var með tvöfalda tvennu og einungis einni stoðsendingu frá þrefaldri tvennu. Þá munaði um baráttu Sigurðar Þórarinssonar og Dominique Holmes undir körfunni og Sigmars Egilssonar í vörn Skallagríms en Sigmar átti að auki góðan leik sóknarmegin og setti niður 14 stig.
Skallagrímsmenn eiga eftir einn útileik í Lengjubikarnum sem fram fer að viku liðinni gegn Þór frá Þorlákshöfn. Næsti leikur í 1 deild er á dagskrá eftir liðlega tvær vikur þegar Borgnesingar halda suður með sjó föstudaginn 2. desember til Grindavíkur og leika gegn liði ÍG.
Mynd/ Sigga Leifs
Umfjöllun/ Heiðar Lind Hansson – www.skallagrimur.is