Í kvöld mættust Stjarnan og Breiðablik í Ásgarði í næst seinasta leik liðanna í úrvalsdeild kvenna tímabilið 2018-2019. Liðin höfðu mæst fyrir viku síðan í Laugardalshöllinni þar sem að Stjarnan hafði tryggt sig áfram í bikarúrslitaleikinn með sigri á Blikunum. Gestirnir úr Kópavogi komu ískaldar inn í leikinn í kvöld sem var nokkurn vegin búinn fyrir hálfleikshléið.
Stjarnan sýndi strax frá byrjun frábæra boltahreyfingu og sóknin virtist áreynslulaus. Á hinum enda vallarins gátu Blikar ekki keypt sér körfu og þegar Antonio D’Albero, þjálfari Breiðabliks, tók leikhlé eftir rúmar 6 mínútur var staðan 14-2. Staðan lagaðist aðeins eftir það og grænklæddu gestirnir gátu sett nokkur skot eftir það. Staðan var 21-14 í lok fyrsta leikhluta.
Heimaliðið hélt áfram að láta boltann flæða sóknarlega og Blikar héldu áfram að hitta illa þannig að róðurinn varð þyngri og þyngri eftir því sem að leið á fyrri hálfleikinn. Staðan var orðin 45-25 í hálfleik og þrátt fyrir ágætan þriðja leikhluta hjá gestunum var sigurinn aldrei í hættu og Stjarnan lauk leiknum með bekkjarleikmönnum sínum. Lokastaðan varð því 79-56.
Lykillinn
Lykillinn í dag var liðsheild Stjörnunnar. Boltinn gekk vel og vörnin var stöndug þannig að allt gekk upp hjá Garðbæingum í kvöld. Danielle Rodriguez var þó fremst meðal jafningja með 14 stig, 15 fráköst og 7 stoðsendingar. Hjá Breiðablik var Sanja Orazovic best með 17 stig, 8 fráköst og 7 fiskaðar villur.
Tölfræðin segir sitt
Stjarnan átti betri skotleik en Blikar (44% skotnýting vs. 25% skotnýting), fráköstuðu betur (59 vs. 39) og voru með margfalt betra framlag (104 framlagspunktar vs. 41 framlagspunktar). Það sem gerðist líka var að 7 leikmenn Stjörnunnar skoruðu 7 stig eða meira sem sýnir enn og aftur hve góð boltahreyfingin var innan liðsins.
Kjarninn
Það bjuggust flestir við að Stjarnan myndi vinna þennan leik en það hefði verið gaman ef að Breiðablik hefði gefið meiri mótspyrnu í leiknum. Líkamstjáning gestanna í þessum leik sendi undirrituðum þau skilaboð að fæstar vildu vera inni á vellinum í þessum leik.
Samantektin
Stjarnan er þá komin af stað í því að sækja sér sæti í úrslitakeppninni. Með aðeins 7 leiki eftir eru Stjörnustelpur enn í góðum séns og þessi sigur er telur eins og allir aðrir. Breiðablik er að sama skapi fallið og framlag liðsins virtist allavega í þessum leik bera þess merki að liðið væri búið að gefast upp. Vonandi finna þær í Breiðablik eitthvað til að hvetja sig áfram á lokametrunum og ná að standa í liðum eins og þær gerðu fyrir jól.