Menn slá ekkert slöku við í Slóveníu, liðin í A og B riðli léku þriðja daginn í röð en þau fá svo hvíld á morgun þegar C og D riðill halda áfram.
Þjóðverjar sem hófu keppnina á glæsilegum sigri á Frökkum töpuðu í dag sínum öðrum leik, nú fyrir Úkraínu 88-83 en Úkraína hefur komið mörgum á óvart með þremur sigrum.
Eugene Jeter var atkvæðamestur Úkraínumanna og Heiko Schaffartzik var það hjá Þjóðverjum.
Belgar unnu góðan sigur á Þjóðverjum í gær en lentu í mesta basli með Breta en höfðu að lokum sigur 76-71. Í lokaleik A riðril sigruðu Frakkar Ísraela örugglega 82-63.
Úkraínumenn eru enn taplausir eftir þrjá leiki, Frakkar og Belgar hafa unnið tvo, Þjóðverjar og Bretar einn en Ísrael er án sigurs.
Í B riðli voru einnig hörkuleikir. Boðið var upp á tvo Júggaleiki, Bosnía sigraði Svartfjallaland 76-70 og Makedónía Serbíu 89-75, og einn Eystrasaltsleik þar sem Litháar sigruðu Letta 67-59.
Litháar, Lettar og Serbar eru með 2 sigra en hinar þjóðirnar með 1 sigur hver.
Mynd FIBA Europe/ Sergii Gladyr gerði 25 stig í liði Úkraínumanna í dag.