Ísland mátti þola tap fyrir Úkraínu í dag í undankeppni HM 2023, 79-72. Eftir leikinn er Ísland í 4. sæti riðils síns með 11 stig, en aðeins þrjú efstu liðin fara á lokamótið sem fram fer haustið 2023.
Fyrir leik
Fyrri leik liðanna vann Ísland heima í Ólafssal í síðasta glugga keppninnar, 88-91. Sá leikur var líkt og tölurnar gefa til kynna æsispennandi og réðust úrslit ekki fyrr en eftir framlengingu.
Liðið sem Úkraína mætti með til leiks í kvöld nokkuð frábrugðið því sem lék þennan síðasta leik gegn Íslandi, þar sem aðeins fimm leikmenn sem léku þar voru á skýrslu í dag. Mestu munaði kannski um að nú vantaði þá NBA leikmenn sína, Alex Len og Sviatoslav Mykhailiuk.
Óhætt er að segja að þessi heimavöllur sem Úkraína fékk í Lettlandi vegna innrás Rússlands sé nokkuð ólíkur því sem þeir eru vanir á sínum raunverulega heimavelli. á leikinn voru mættir kannski 150 áhorfendur til þess að styðja liðið, sem venjulega leikur fyrir framan tæplega 10 þúsund manns í höll sinni í Kyiv.
Gangur leiks
Íslenska liðið nær að vera skrefinu á undan í upphafi leiks. Tryggvi Snær Hlinason og Elvar Már Friðriksson báðir virkilega sterkir á þessum upphafsmínútum, en Ísland leiðir með 4 stigum eftir fyrsta leikhluta, 14-18. Mest fer Ísland fimm stigum á undan í öðrum leikhlutanum. Varnarlega nær Úkraína þó að læsa á lokamínútum leikhlutans og jafna leikinn í stöðunni 25-25 og komast loks yfir þegar tæpar 2 mínútur eru eftir í hálfleik, 30-29. Leikurinn helst svo nokkuð jafn til loka fyrri hálfleiks, en þegar liðin halda til búningsherbergja er Úkraína tveimur stigum yfir, 35-33.
Bestu leikmenn Íslands í fyrri hálfleiknum voru Styrmir Snær Þrastarson með 5 stig, 4 fráköst, 3 stoðsendingar og Tryggvi Snær Hlinason með 12 stig og 4 fráköst.
Strax á fyrstu mínútum seinni hálfleiksins nær íslenska liðið forystunni aftur með sjö stigum í röð frá Jóni Axeli Guðmundssyni. Vörn Íslands þó eins og gatasigti í byrjun þriðja leikhlutans, svo úkraína náði vel að halda í við þá. Munurinn aðeins tvö stig þegar fjórðungurinn var rúmlega hálfnaður, 44-46. Undir lok leikhlutans er leikurinn nokkuð jafn og skiptast liðin á forystunni í nokkur skipti. Með laglegum þrist frá Elvari Már nær Ísland að vera tveimur yfir fyrir lokaleikhlutann, 51-53.
Báðum liðum gengur erfiðlega að skora í upphafi þess fjórða. Úkraína nær þó að vera körfu á undan í nokkrar mínútur, en þegar fimm mínútur eru til leiksloka er munurinn eitt stig, 62-61. Úkraína kemst svo fimm stigum yfir þegar rúmar tvær mínútur eru eftir, 70-65. Íslenska liðið gerir atlögu að þessari naumu forystu heimamanna undir lokin, en allt kemur fyrir ekki. Úkraína nær í endann að kría út sjö stiga sigur, 79-72.
Atkvæðamestir
Tryggvi Snær Hlinason var frábær fyrir Ísland í dag, með 24 stig og 14 fráköst. Honum næstur var Styrmir Snær Þrastarson með 7 stig, 8 fráköst og 4 stoðsendingar.
Hvað þýða úrslitin?
Fyrir þennan leik voru Ísland og Georgía jöfn að stigum í 3.-4. sæti riðils þar sem að þrjú lið komast áfram. Vegna sigurs síðasta föstudags var Georgía með innbyrðisstöðuna á Ísland. Þar sem að Georgíu mistókst að vinna Ítalíu í sínum leik í dag, er lokaleikur Íslands og Georgíu alltaf orðinn úrslitaleikur um hvort liðið tryggji sér farmiða á lokamótið háð því að Ítalía nái að vinna Úkraínu og halda þeim þannig úr baráttunni um þriðja sætið.
Hvað svo?
Næsti og jafnframt síðasti gluggi keppninnar er í lok febrúar 2023. Þá leikur Ísland fyrst heimaleik gegn Spáni áður en liðið mætir Georgíu úti í Tbilisi.
Umfjöllun Körfunnar um íslensku landsliðin er kostuð af Lykil