Íslenska U18 ára landsliðið lenti í miklum slag gegn Portúgal í dag og mátti sætta sig við 77-75 ósigur eftir framlengdan leik í Bosníu. Matthías Orri Sigurðarson var stigahæstur í íslenska liðinu með 20 stig.
Matthías Orri kom leiknum í framlengingu fyrir Ísland þegar hann jafnaði metin í 69-69. Í framlengingunni jöfnuðu Portúgalir 75-75 þegar mínúta var eftir. Matthías Orri átti svo tveggja stiga skot þegar 4 sekúndur lifðu leiks, skotið geigaði en Portúgalir fundu tíma til að ná frákastinu, komast yfir völlinn og skora tveggja stiga körfu til að stela sigrinum.
Á morgun er frídagur hjá strákunum en á laugardag mæta þeir Slóvökum í krosspili og sigurvegarinn spilar um 13.-14. sætið við sigurvegarann úr viðureign Svía og Rúmena. Tapliðin mætast um 15.-16. sætið, en allir leikir um sæti fara fram á sunnudag.