spot_img
HomeFréttirU16 stúlkna: Svekkjandi tap á móti Dönum í fyrsta leik

U16 stúlkna: Svekkjandi tap á móti Dönum í fyrsta leik

Undir 16 ára landslið stúlkna laut í lægra haldi fyrir Dönum í fyrsta leik íslensku liðanna á NM 2016 í Finnlandi í dag. Leikurinn var æsispennandi og hefði hæglega getað lent hvoru megin sem var en lauk eins og áður sagði með sigri Dana, 58 – 55.

Íslensku stelpurnar byrjuðu leikinn betur og voru óhræddar við að keyra á Danina. Fyrstu fjögur stigin voru Íslendinga og voru þar að verki Hrund Skúladóttir og Sigrún Elfa Ágústsdóttir. Danir voru fljótir að ranka við sér og hertu á varnarleiknum á meðan Íslensku stelpurnar voru óheppnar í vörninni og fengu dæmda á sig villu tvær sóknir í röð. Dönsku stelpurnar nýttu þrjú af vítunum sínum og minnkuðu muninn niður í eitt stig. Íslensku stelpurnar voru duglegar að berjast um sóknarfráköstin og reyna að skapa sér annað tækifæri í sókninni, en erfiðlega gekk að setja niður opin skot. Danir náðu yfirhöndinni um miðjan leikhlutann, 5-4 en Birna Benónýsdóttir jafnaði leikinn úr vítaskoti. Fleiri urðu stig íslenska liðsins ekki í leikhlutanum og leiddu Danir að honum loknum 11-5.
 

Líkt og fyrsti leikhluti, einkenndist annar leikhluti af föstum varnarleik og erfiðum skotum. Eftir um 7 mínútna stigaþurrð af hálfu íslenska liðsins, setti Elsa Albertsdóttir niður þrjú stig og minnkaði muninn í fimm stig í stöðunni 13-8. Kristín María Matthíasdóttir setti niður tvær mikilvægar þriggja stiga körfur fyrir Íslendinga undir lok leikhlutans og Birgit Ósk Snorradóttir fylgdi á eftir tveimur stigum. Munurinn kominn niður í eitt stig og skammt til hálfleiks. Óvönduð sending hjá Íslendingum og hraðaupplaup hjá Dönum tryggði þeim þriggja stiga forystu í hálfleik, 21-18. Íslensku stelpurnar virtust þau eiga nóg inni og hefðu hæglega geta haft forystuna í hálfleik ef ekki væri fyrir opin skot sem ekki vildu detta og erfiðar sendingar sem ekki rötuðu rétta leið.

Íslendingar áttu erfitt uppdráttar í sóknarleiknum í upphafi seinni hálfleiks en Kristín María opnaði hálfleikinn fyrir þær með þriggja stiga flautukörfu, spjaldið ofan í. Hrund Skúladóttir fylgdi á eftir með tveimur stigum og minnkaði muninn niður í eitt stig. Næstu fjögur stig voru Dana sem spiluðu sig nokkuð auðveldlega í gegnum íslensku vörnina og settu niður sniðskot. Þá hrökk sóknarleikur Íslendinga í gang sem og stuðningsmannasveitin íslenska liðsins sem var litrík og nokkuð fjölmenn í stúkunni. Íslendingar náðu fjögurra stiga forystu í stöðunni 31-35 með þriggja stiga körfu frá Hrund Skúladóttur. Þær héldu áfram að bæta í og leiddu eftir þriðja leikhluta 37-43.

Danir komu mun ákveðnari til leiks í fjórða leikhluta. Íslenska liðið náði að skapa sér fá opin færi og Danir komust of auðveldlega að körfunni. Fyrstu átta stigin voru Dana sem náðu yfirhöndinni í stöðunni 45-43. Við tóku æsispennandi lokamínútur þar sem hvorugt lið vildi gefa neitt eftir. Hrund Skúladóttir jafnaði fyrir Ísland í stöðunni 53-53 þegar tæp mínúta var eftir en Danir voru sterkari á lokasprettinum og svekkjandi tap fyrir Dönum niðurstaðan, 58-55.

Íslensku stelpurnar börðust vel allar sem ein út leikinn en 23 tapaðir boltar og opin skot sem ekki rötuðu rétta leið voru liðinu dýrkeypt í kvöld. 

Tölfræði leiksins

Myndasafn úr leik

 

Viðtöl:

 

 

Fréttir
- Auglýsing -