spot_img
HomeFréttirU16 kvk: Súrt í broti gegn Norðmönnum

U16 kvk: Súrt í broti gegn Norðmönnum

 
Íslenska U16 ára landslið kvenna mátti rétt í þessu sætta sig við afar súrt tap gegn Norðmönnum á Norðulandamótinu í Svíþjóð. Ísland leiddi leikinn langstærsta hlutann en villuvandræði og vítafjöldi Norðmanna á heimsmetamælikvarða reyndist íslenska liðinu um megn. Lokatölur leiksins voru 80-86 Norðmönnum í vil. Íslenski hópurinn var fjarri því feiminn við að taka þriggja stiga skot og hefðu mátt leita meira inn í teiginn í dag.
Vígreifar frá fyrstu sekúndu mættu íslensku stelpurnar með læti inn á parketið og fyrstu stigin í hús eftir stolinn bolta og hraðaupphlaup. Besta leiðin til að byrja körfuboltaleik! Ísland setti mikla og góða pressu á Norðmenn og komust fyrir vikið í 9-3 en Norðmenn voru fljótir að brúa bilið en öðru sinni tókst Íslandi að slíta sig frá og eftir tvo þrista frá Hallveigu Jónsdóttur var staðan orðin 23-9.
 
Norðmenn söxuðu forskotið niður á nýjan leik en Ísland leiddi 28-21 að loknum fyrsta leikhluta eftir sóknarfrákast og flautukörfu hjá Andreu Rán Hauksdóttur. Flottur fyrsti leikhluti hjá íslenska liðinu sem kom afar einbeitt til leiks.
 
Bæði lið voru komin í svæðisvörn í öðrum leikhluta og framan af honum var það miðherjinn Sandra Lind Þrastardóttir sem réði ríkjum á báðum endum vallarins. Hallveig Jónsdóttir skellti niður sínum þriðja þrist í leiknum og kom Íslandi í 33-22.
 
Andrea Björt Ólafsdóttir var mögnuð í íslensku vörninni og í sókninni sýndi Sara Rún Hinriksdóttir hvers hún er megnug en það var varnarleikurinn hjá báðum liðum sem var í fyrirrúmi í öðrum leikhluta. Lovísa Björt Henningsdóttir setti langþráðan þrist þegar Norðmenn voru að þokast nærri og kom Íslandi í 41-31 og hálfleikstölur 45-36 Íslandi í vil.
 
Hallveig Jónsdóttir var stigahæst í hálfleik með 9 stig, setti niður 3 af 4 þriggja stiga skotum sínum. Sara Rún Hinriksdóttir var með 8 stig og Sandra Lind Þrastardóttir var með 4 stig, 7 fráköst og 2 varin skot.
 
Lovísa Björt Henningsdóttir opnaði síðari hálfleik með þriggja stiga körfu en þær Sara, Sandra og Andrea hófu leikinn allar á bekknum en þessar byrjunarliðsstúlkur voru allar með þrjár villur úr fyrri hálfleiknum.
 
Norðmenn voru ívið betri í þriðja leikhluta og efldust þegar Andrea Björt Ólafsdóttir hafði komið inn í stutta stund og fengið tvær villur á skömmum tíma og þar með fimm villur í leiknum. Sú fimmta var ruðningsvilla sem var bæði þungur og rangur dómur og Andrea skiljanlega ekki sátt við sitt hlutskipti.
 
Norðmenn náðu undir lok þriðja leikhluta að minnka muninn í 57-55 en þá kom Ingunn Embla Kristínardóttir aðvífandi með flautuþrist og Ísland leiddi 60-55 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Norðmenn unnu þriðja leikhluta 15-19 og nokkuð farið að draga af báðum liðum enda gríðarhátt tempó í leiknum.
 
Eftir tveggja mínútna leik í fjórða leikhluta þurfti Lovísa Björt Henningsdóttir frá að víkja með sína fimmtu villu og hún varð því miður ekki sú síðasta. Andrea Hauksdóttir mætti þó með sárabót við brotthvarf Lovísu er hún skellti niður þrist og kom Íslandi í 65-58. Sara Rún Hinriksdóttir fór síðar útaf með fimm villur og kvarnaðist verulega úr íslenska hópnum.
 
Þegar sex mínútur voru til leiksloka náðu Norðmenn að jafna 67-67, íslenska liðið var að brjóta of mikið og taka of mikið af þriggja stiga skotum. Þegar þrjár mínútur voru til leiksloka fékk Sandra Lind Þrastardóttir sína fimmtu villu í íslenska liðinu en þær bláu héldu áfram að berjast og komust í 74-72 með þrist frá Anítu Carter Kristmundsdóttur sem kom svellköld inn af bekknum. Norðmenn jöfnuðu 74-74 og reyndust það lokatölur í venjulegum leiktíma svo framlengja varð leikinn.
 
Norðmenn tóku fljótt undirtökin í framlengingunni og svo fór að lokum að Ísland mátti sætta sig við 80-86 ósigur í leiknum. Villurnar voru of margar og reyndust að lokum of dýrkeyptar en Norðmenn tóku alls 63 víti í leiknum og fannst undirrituðum þær á sérsamning hjá miður góðum dómurum leiksins!
 
Stigaskor íslenska liðsins:
 
Hallveig Jónsdóttir: 14
Ingunn Embla Kristínardóttir: 11
Guðlaug Júlíusdóttir: 11
Aníta Carter Kristmundsdóttir: 10
Sara Hinriksdóttir: 10
Lovísa Henningsdóttir: 7
 
U16 ára lið kvenna leikur annan leik í dag kl. 18:30 og mæta þá Dönum.
 
 
Fréttir
- Auglýsing -