Leikurinn um 5 sætið hjá u-15 kvk gegn Finnum hófst klukkan 12:45 í Farum Arena.
Stelpurnar höfðu fengið góða hvíld og mættu ferskar til leiks. Leikurinn var í járnum í fyrsta leikhluta þar sem liðin skiptust á að skora nánast frá fyrstu mínútu. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 18-20 Finnum í hag.
Finnar byrjuðu annan leikhluta virkilega vel og hvert skotið af fætur öðru rataði ofaní á meðan ekkert gekk hjá íslensku stelpunum. Þegar fimm mínútur voru liðnar af öðrum leikhluta voru þær finnsku komnar með þægilegt forskot 20-33 og Ísland tók leikhlé. Stelpurnar mættu svakalega tilbúnar eftir það og síðustu fimm mínútur hálfleiksins spiluðu þær frábærlega í vörn og sókn. Áhlaup íslenska liðsins varð ekki stöðvað fyrr en við lokaflaut fyrri hálfleiks en þá höfðu þær skorað 19 stig gegn engu og staðan því orðin 39-33. Frábær kafli hjá íslenska liðinu þar sem Birna fór mikinn í sókninni og varnarleikur liðsins var algjörlega til fyrirmyndar.
Í seinni hálfleik náðu íslensku stelpurnar sér aldrei á strik aftur og Finnar spiluðu virkilega vel. Þær náðu að ýta íslenska liðinu úr sínum sóknaraðgerðum og pressuðu þær stíft um allan völl. Of margir tapaðir boltar hjá íslensku stelpunum og frábær hittni hjá þeim finnsku urðu Íslandi að falli í þessum leik. Þriðji leikhlutinn tapaðist með ellefu stigum og sá fjórði einnig.
Niðurstaðan var því 67-83 tap þar sem þær íslensku gáfu allt sitt í leikinn en urðu að sætta sig við sjötta sætið á mótinu. Þær geta borið höfuðið hátt eftir þetta mót og ljóst að leikmenn bættu töluvert í reynslubankann sinn sem mun vonandi nýtast þeim vel í framtíðinni.
Allir leikmenn liðsins fengu að spreyta sig í öllum leikjum mótsins. Stigaskorið í leiknum í dag var þannig að Birna skoraði 23 stig, Kamilla og Sigrún 9 stig, Hrund 8 stig, Eydís 7 stig, Halla 6 stig, Elsa og Birgit 2 stig og Kristín 1 stig.
Texti: Helena Sverrisdóttir