Undir 16 ára lið stúlkna tapaði gegn Finnlandi í lokaleik Norðurlandamótsins í Kisakallio. Þær unnu tvo leiki og töpuðu þremur og hafna því í 4. sæti á mótinu en Finnar unnu alla sína leiki og tóku gullið.
Fyrir leik
Fyrir leikinn var íslenska liðið búið að vinna 2 leiki og tapa 2 en Finnland búnið að vinna alla sína leiki með 30+ stigum.
Í byrjunarliði Íslands í dag voru Rebekka Steingrímsdóttir, Kristín Guðjónsdóttir, Hulda Agnarsdóttir, Sara Logadóttir og Berta Þorkelsdóttir.
Gangur leiks
Leikurinn fór nokkuð fjörlega af stað. Liðin skiptust á snöggum áhlaupum og var það oftar en ekki Ísland sem var skrefinu á undan. Þegar ein sekúnda var eftir af fjórðungnum fengu Finnar tvö víti og komust í 1 stigs forskot þegar fyrsti fjórðungur endar. Finnland opnar annnan leikhluta betur og komast í 6 stiga mun. Ísland svaraði með fínu áhlaupi og Hulda náði að jafna leikinn með þrist, 24-24. Finnska liðið gerði betur síðustu mínúturnar og munurinn var aftur orðinn 6 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 30-24.
Stigahæst hjá íslenska liðinu í fyrri hálfleik var Hulda með 7 stig. Henni næst voru Rebekka og Kristín báðar með 5 stig.
Lítið sem gekk hjá íslenska liðinu í upphafi seinni hálfleiks og heimamenn komu sér í 17 stiga forystu, 44-27. Ísland elti allan leikhlutann sem endaði með 15 stiga forystu Finna, 57-42. Liðin byrjuðu síðasta fjórðung nokkuð jöfn en síðan byrjuðu Finnarnir hægt en örugglega að styrkja stöðu sína og komust mest í 28 stiga mun, 72-44. Ísland náði aðeins að klóra í bakkann undir lokin og minnkuðu bilið niður í 18. Þær náðu þó aldrei nægilega góðu áhlaupi og endaði leikurinn með 21 stiga mun, 78-57.
Atkvæðamestar
Atkvæðamest íslenska liðsins í dag var Hulda María Agnarsdóttir með 19 stig, 5 fráköst og 3 stoðsendingar. Henni næst var Sara Björk Logadóttir með 9 stig, 5 fráköst og 2 stolna bolta.
Hvað svo?
Íslensku liðin eru með kvöldvöku í kvöld en síðan er haldið af stað heim á morgun.