Undir 16 ára drengjalið Íslands vann Svíþjóð á Norðurlandamótinu í Kisakallio, 62-69. Íslenska liðið er því búið að vinna einn og tapa einum leik á mótinu, en á morgun eiga þeir leik gegn Eistlandi.
Fyrir leik
Fyrir leik hafði íslenska liðið spilað einn leik gegn Noregi sem endaði með sigri Noregs. Margt gott hægt að taka úr þeim leik en skotnýtingin varð þeim að falli, með smá heppni hefðu þeir hæglega geta unnið.
Í byrjunarliði Íslands í dag voru Marinó Gregers Oddgeirsson, Leó Steinsen, Jakob Kári Leifsson, Róbert Óskarsson og Sturla Böðvarsson.
Gangur leiks
Ísland byrjaði leikinn vel og kom sér upp 7 stiga forystu á fyrstu mínútum leiksins. Íslenska liðið spilaði vel á milli sín og vörnin var öflug. Í lok leikhlutans var staðan orðin 11-22 og Ísland búið að breikka bilið upp í 11 stig. Í öðrum leikhluta hélt íslenska liðið sama dampi og varði forystu sína vel. Þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik var munurinn 9 stig, 23-32.
Seinni hálfleikur byrjaði hægt en Svíþjóð náði síðan nokkrum hraðarupphlaupum í röð og minnkuðu bilið fljótt niður í 2 stig, 37-39. Ísland náði betri stigasöfnun eftir því sem leið á leikhlutann og voru með 4 stiga forystu þegar fjórði leikhluti hófst, 42-46. Orkan var með Íslandi í upphafi fjórða leikhluta og komu þeir sér upp sterku 9 stiga forskoti á stuttum tíma. Ísland hélt stöðu sinni út leikinn og leyfði Svíþjóð aldrei að klukka sig, þeir unnu svo að lokum með 7 stigum, 62-69.
Atkvæðamestir
Atkvæðamestur í Íslenska liðinu var Jakob Leifsson með 18 stig, 12 fráköst og 8 stoðsendingar. Honum næstur var Róbert Óskarsson með 15 stig, 4 fráköst og 3 stoðsendingar.
Hvað svo?
Drengirnir eiga leik á morgun gegn Eistlandi kl. 16:45.