Tindastóll hafði sigur á ÍR í kvöld þegar liðin mættust í Hertz Hellinum í þriðju umferð Domino's deildar karla. Miklar væntingar voru gerðar til liðs Tindastóls fyrir mót en frammistaða þeirra í fyrstu tveimur umferðunum hefur verið undir væntingum og höfðu þeir því allt að sanna í kvöld. ÍR-ingar mættu til leiks án þriggja lykilleikmanna, en Matthías Orri var ekki með vegna veikinda, Kristinn Marinósson er meiddur og Stefán Karel hlaut heilahristing í leik á móti sínu gamla liði, Snæfell, í fyrstu umferð deildarinnar og verður því frá í einhvern tíma.
Viðsnúningurinn
Heimamenn voru 10 stigum undir í hálfleik en mættu sterkir til leiks í þriðja leikhluta. Þeir náðu að loka vel á sóknarleik Sauðkrækinga sem settu ekki nema eina körfu á fyrstu fjórum mínútum leikhlutans. ÍR gafst í tvígang tækifæri á að minnka muninn niður í eitt stig eða jafna í stöðunni 44-47 en hik og óákveðni í sóknarleiknum kom í veg fyrir að það tækist. Í staðinn kom áhlaup frá Tindastól sem vann upp þægilegt 17 stiga forskot áður en þriðji leikhluti var flautaður af og það forskot létu þeir ekki af hendi.
Hetjurnar
Pétur Rúnar Birgisson og Chris Caird drógu vagninn fyrir Tindastól í kvöld. Pétur sýndi gríðalega vinnusemi í leiknum, stjórnaði sóknarleik sinna manna og setti niður 22 stig. Chris var sjóðheitur fyrir utan þriggja stiga línuna í fyrsta leikhluta og endaði stigahæstur Sauðkrækinga með 26 stig.
Tölfræðin
Það sem helst skilur liðin að í tölfræðinni í leiknum í kvöld er skotnýting þeirra. ÍR var með 36% skotnýtingu í leiknum (26/73) og Tindastóll með 49% nýtingu (31/63).
Kjarninn
Þrátt fyrir sigur í kvöld gegn vængbrotnuliði ÍR var Tindastóll ekki nægilega sannfærandi, leikur þeirra of sveiflukenndur og er hætt við að spilamennska eins og þeir sýndu í kvöld dugi skammt ætli þeir sér stóra hluti á móti toppliðum deildarinnar. ÍR á mikið inni í þeim Stefán Karel, Kristni og Matthíasi Orra og má því ætla að leikurinn hafi ekki gefið rétta mynd af því sem koma skal hjá Breiðhyltingum í vetur.