Grindavík hafði sigur á Fjölni í spennandi leik í Mustad Höllinni í 1. deild kvenna í dag. Þetta var annar leikur beggja liða en Grindavík sigraði nýliða Ármanns í 1. umferð á meðan Fjölnir hafði sigur á nýliðum ÍR.
Þáttaskil
Grindavík náði yfirhöndinni strax á fyrstu mínútu leiksins og voru með 12 stiga forystu í hálfleik. Fjölnir átti góð áhlaup í þriðja leikhluta en komst ekki yfir fyrr en í byrjun þess fjórða þegar Fanndís María setti niður þrist og kom Fjölni 1 stigi yfir. Á þessum tímapunkti virtist meðbyrinn allur vera með gestunum. Grindavíkurstúlkur hertu sig þá í vörninni og undir forystu Emblu Kristínardóttur sigldu þær heim kærkomnum 5 stiga sigri.
Tölfræðin lýgur ekki
Skotnýting heimakvenna var mun betri en nýting gestanna í dag eða 41% á móti 28% Fjölnis. Þess fyrir utan sigraði Grindavík frákastabaráttuna með 52 fráköstum á móti 47 fráköstum Fjölnis.
Hetjan
Embla Kristínardóttir var hetja Grindavíkurkvenna og leiddi liðið til sigurs. Hún lauk leik með 27 stig, tók 17 fráköst og gaf 6 stoðsendingar en 14 stiga hennar komu í lokafjórðungum.
Kjarninn
Eftir erfitt tímabil hjá Grindavík síðasta vetur þar sem liðið féll niður um deild, misstu þær marga af sínum reyndustu leikmönnum. Ungt lið Grindavíkur hefur byrjað tímabilið vel í 1. deild og er nú með tvo sigra úr tveimur leikjum og verður spennandi að fylgjast með liðinu í vetur.
Þrátt fyrir að hafa verið undir allan fyrri hálfleikinn mættu Fjölnisstúlkur ákveðnar til leiks í þriðja leikhluta og komust nærri því að stela sigrinum. Þær eiga inni bakvörðinn McCalle Feller sem samið hefur við Fjölni um að leika með liðinu á tímabilinu en hún var ekki mætt með liðinu til Grindavíkur í dag.
Myndasafn úr leik (Benóný Þórhallsson)