Á laugadagseftirmiðdeginum mætti íslenska karlalandsliðið í körfubolta því belgíska á Akranesi. Fyrir leikinn hafði þjálfari Íslands, Craig Pedersen, hitt stuðningsmenn íslenska landsliðsins og setið fyrir svörum. Þetta var annar vináttuleikurinn af tveimur gegn Belgum hér heima á klakanum áður en strákarnir færu út í æfingaleikjaferð og frekari undirbúning fyrir EM 2017 í Finnlandi.
Ísland vann fyrri leikinn seinasta fimmtudag og ætlaði sér að halda út með tvo sigra í farteskinu. Pavel Ermolinskij og Kristófer Acox voru heiðraðir fyrir leikinn, en feður þeirra, Alexander Ermolinskij og Terry Acox, spiluðu báðir fyrir ÍA á sínum tíma. Óperusöngkonan Hanna Þóra Guðbrandsdóttir söng svo íslenska þjóðsönginn fyrir fullum sal af stuðningsmönnum.
?Ísland fór hægar af stað en í fimmtudagsleiknum en vann að lokum með meiri mun, 85-70.
GANGUR LEIKSINS
Ísland byrjaði leikinn ekki jafn sterkt og á fimmtudagskvöldið og ljóst var strax frá upphafi að það væri fátt vinalegt við þennan svokallaða vinnáttuleik. Belgar tóku fljótt forystuna en þrír vel valdir þristar frá Hauki Helga komu undir lok fyrsta leikhluta og komu strákunum okkar yfir. Staðan 21-17 eftir fyrstu 10 mínúturnar.
Belgar byrjuðu næsta leikhluta betur og náðu muninum aðeins niður en góð vörn hjá Íslandi skilaði öllu aftur á örskots stundu, og meira til, en þeir leiddu mest með 13 stigum. Strákarnir okkur slökuðu heldur mikið á undir lok hálfleiksins og gestirnir náðu þá aðeins að laga stöðuna. Með góðri vörn og betri sókn á lokamínútunum náði íslenska liðið að koma stöðunni aftur upp í 12 stig og staðan því 44-32 í hálfleik, heimamönnum í vil. Ísland hafði þar með unnið fyrstu tvo leikhlutana með 4 og 8 stiga mun.
Í seinni hálfleik byrjuðu Íslendingar af krafti og Hlynur Bæringsson skoraði fyrstu 8 stig leikhlutans af stakri prýði. Belgar voru þó ekki langt undan og fóru loks að setja skotin sín. Bæði liðin tóku áhlaup í þessum leikhluta en þau eyddu eiginlega hvert öðru út fyrir utan lokaskot leikhlutans hjá Sigtryggi Arnari sem vann leikhlutann með 3 stigum. 68-53 fyrir lokaleikhlutann og áhorfendur virtust nokkuð sáttir með frammistöðu liðsins hingað til. Lítið breyttist í fjórða leikhluta, Ísland hélt áfram að rúlla á vörn, góðri boltahreyfingu og glæsilegum sendingum. Allir í liðinu gerðu sitt og þegar lokaflautan gall hafði Ísland tryggt 15 stiga sigur, 85-70.
TÖLFRÆÐI LEIKSINS
Íslenska landsliðið hélt áfram að hitta vel í þessum leik og settu rúmlega 50% af skotum sínum bæði innan sem utan þriggja stiga línunnar (51% í tveggja stiga skotum og 50% í þriggja stiga skotum). Ísland vann alla leikhlutana fyrir utan seinasta þar sem liðin skildu á jöfnu. Það eina sem skildi liðin að í þessum leik var skotnýtingin, en Ísland skaut betur í tvistum, þriggjum og vítum.
HETJAN
Haukur Helgi Pálsson átti tvímælalaust mestan þátt í sigri liðsins í dag þó að flestir liðsmenn Íslands hafi skilað sínu. Haukur Helgi skoraði 23 stig, varði 3 skot, tók eitt frákast, stal einum bolta og gaf eina stoðsendingu. Flottast var þó að hann klikkaði aðeins úr tveimur skotum í öllum leiknum (4/6 í tveggja stiga skotum, 4/4 í þriggja stiga skotum og 3/3 í vítum), en Haukur Helgi spilaði rétt tæpar 24 mínútur. Hann var framlagshæstur með 26 framlagspunkta.
KJARNINN
Góður sigur á Akranesi og gaman að sjá upphaflega liðið frá seinasta EM spila saman, fyrir utan Martin Hermannson sem spilaði ekki og Helga Má Magnússon og Jakob Örn Sigurðsson, sem gáfu ekki kost á sér í landsliðið í ár. Að þessu sinni fór Ísland hægar af stað en hélt pressunni allan tímann og juku muninn jafnt og þétt. Gott veganesti fyrir EM í Helsinki. Ísland fer þá út í æfingaleikjaferðina sína með tvo heimasigra í farteskinu, en þeir munu núna hefja lokaundirbúning fyrir EM 2017 í Finnlandi. Þar munu þeir mæta Grikkjum, Finnum, Frökkum, Pólverjum og Slóvenum og ljóst að allir í liðinu verða að mæta tilbúnir, jafnt leikmenn sem og þjálfarar. Þó að aðeins þrír leikmenn hafi spilað með hópnum í dag sem voru ekki í lokahópnum á EM 2015 er ljóst að úr vöndu er að velja fyrir þjálfara liðsins og margir eru að banka á dyrnar hjá lokahópnum.
Viðtöl: