Tindastóll tók á móti liði Hamars/Þórs í Bónus deild kvenna í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Talsverðar breytingar hafa orðið á liði heimakvenna og Israel Martin lofaði hraðara liði eftir skiptingarnar.
Heimakonur byrjuðu leikinn ágætlega og náðu 10 stiga forystu um miðjan fyrsta leikhlutann með þristi frá Randi. Gestirnir fóru svo í gang og minnkuðu muninn jafnt og þétt, staðan 27-24 eftir fyrsta leikhluta eftir þrist frá Abby sem var frábær í kvöld. Rétt er einnig að minnast á Jóhönnu Ýr sem setti 8 stig í röð fyrir gestina og kom þeim inn í leikinn aftur. Gestirnir tóku svo stjórnina í öðrum leikhluta á meðan heimakonur virkuðu vankaðar og voru slakar í vörn auk þess sem þær hleyptu gestunum alltof auðveldlega í fráköst. Hamar/Þór leiddi í hálfleik 52-57.
Gestirnir héldu svo áfram sterkum leik í þriðja leikhluta og náðu mest 13 stiga forystu. Stólakonur börðust ágætlega og nýr leikmaður, Biola Dinga kom þeim inn í leikinn aftur í fjórða leikhluta með 3 þristum í röð og mikil stemning í Síkinu þegar Ewa jafnaði í 80-80 með þrist þegar sex og hálf mínúta var ennþá eftir, nægur tími. Gestirnir, með Abby við stjórnvölinn, voru þó ekkert á því að gefa eftir og voru alltaf skrefi á undan. Ewa villaði út þegar 5 mínútur voru eftir og það munaði miklu að missa þá ógn. Þristur frá Önnu Soffíu þegar 2:44 voru eftir kom muninum í 7 stig og fór í raun langt með leikinn. Stólar áttu þó Randi Brown og hún minnkaði muninn í 1 stig með 2 þristum og jafnaði leikinn í 94-94 með þeim þriðja þegar 28 sekúndur voru eftir. Hamar/Þór átti lokasóknina og nýttu hana einkar vel og enduðu með sigurkörfu eftir sóknarfrákast, 94-96.
Hjá Tindastól var Randi atkvæðamest með 36 stig og 7 fráköst. Dinga var að koma ágætlega inn í liðið og endaði með 16 stig en Zuzanna átti í erfiðleikum. Hjá gestunum var Abby allt í öllu, endaði með 34 stig og 15 stoðsendingar.
Umfjöllun / Hjalti Árna