Þeir í Kópavoginum taka hátíðarnar og jólamánuðinn alvarlega enda hafa Blikar ekki tapað leik síðan í nóvember. Það væri fáránlegt stílbrot klári liðið ekki söguna með réttum endi í Garðabænum í kvöld. En körfuboltanum er alveg drull um stíl og tísku enda munu Stjörnumenn ekkert hræðast frekar en vanalega. Þeir í Garðabænum hafa að vísu verið í smá basli með að brýna hnífana enn sem komið er – birtist kannski sparistellið í MG-höllinni í kvöld?
Kúlan: Kúlan fékk sjálfstraust í jólagjöf og birtir auðtúlkanlega mynd. Þar er skínandi sparistell af dýrari gerðinni flæðandi um í körfuboltabaði. Vörn heimamanna verður gestunum þungur hnífur og Stjarnan hefur sigur 95-89 í skemmtilegum leik.
Byrjunarlið
Stjarnan: Hilmar, Gabrovsek, Turner, Hopkins, Tommi
Breiðablik: Danero, Prescott, Hilmar, Sigurður, Everage
Gangur leiksins
Það blés ekki byrlega fyrir spádómum Kúlunnar og strax merki um að leikurinn yrði hefðbundinn Blikaleikur. Leikurinn leit á köflum út eins og þriggja stiga skotkeppni og þar standa gestirnir betur að vígi. Blikar tóku strax í stýrið og leiddu meira og minna með nokkrum stigum út fyrsta leikhluta, staðan 27-33 að honum loknum.
Liðin skiptust á körfum fyrstu mínútur annars leikhluta og þegar tæpar 6 mínútur voru til leikhlés tók Arnar leikhlé í stöðunni 33-41 og var auðheyrilega ekki alls kostar sáttur með sína menn. Ekki var mikla breytingu að sjá strax, Blikar komu sér í 41-51 þegar enn voru 3 mínútur eftir af leikhlutanum en heimamenn náðu að skera þann mun niður um helming fyrir hlé, staðan 57-62.
Blikar hófu síðari hálfleikinn af miklum krafti, stálu boltum í gríð og erg og keyrðu hreinlega yfir heimamenn. Í stöðunni 57-73 fékk Gunnar Ólafs tvær tæknivillur og var sendur í bað – útlitið heldur betur svart fyrir Stjörnumenn og hvergi glitti í silfurhníf, hvað þá gull. Munurinn fór upp í 18 stig, 67-85, þegar tæpar 4 voru eftir af þriðja og Arnar tók þá leikhlé. Uppleggið var líkast til að koma boltanum á Gabrovsek á póstinum í ríkari mæli en áður, það gekk glimrandi og hlutirnir byrjuðu loksins að rúlla með Stjörnumönnum. Danero og Sveinbjörn voru báðir komnir með 4 villur á þessum tímapunkti sem eru einmitt þeir leikmenn sem eitthvað hafa í Gabrovsek undir körfunni. Einnig smelltu heimamenn sér í svæðisvörn eftir leikhlé Arnars en það má líklegast deila um hvort það gerði eitthvað gagn. Munurinn aðeins 11 stig fyrir lokafjórðunginn, 80-91.
Blikar virtust ætla að klára þennan leik í upphafi fjórða, byrjuðu 0-7 og aftur var munurinn 18 stig 80-98 og átta mínútur eftir af leiknum. Þá drógu Stjörnumenn loksins fram sparistellið! Fremstur í flokki var Turner með skínandi steikarhníf í vinstri hendi sem hann sveiflaði í allar áttir eins og þrír væru. Heimamenn áttu 9-0 sprett á einni og hálfri mínútu! Everage og Hilmar Péturs mölduðu í móinn hvor með sinn þristinn en Turner lét eins og ekkert væri og hélt áfram að svífa í gegnum vörn gestanna eða negla niður þristum. Turner jafnaði svo leikinn í 113-113 þegar ein og hálf mínúta var eftir og allir í húsinu sáu í hvað stefndi. Hinir óttalausu skotmenn Blika settu ekki skotin sín þegar mest lá við, Turner kom sínum mönnum yfir með enn einu gegnumbrotinu og Hilmar Smári ísaði leikinn á línunni í lokin, lokatölur 117-113 í frábærum leik með viðsnúningi af stærstu gerð!
Menn leiksins
Robert Turner var algerlega svakalegur í þessum leik og það sem kannski mestu skipti var að hann gerði hlutina í lokin en þá ráðast úrslitin eins og allir þekkja. Gaurinn setti 43 stig, tók 11 fráköst og gaf 5 stoðsendingar! Hann var með frábæra nýtingu og endaði með 51 framlagsstig sem er fáheyrt!
Everage spilaði vel að vanda fyrir gestina, setti 33 stig, tók 11 fráköst og gaf 8 stoðsendingar. Hilmar og Prescott voru einnig flottir, með 27 og 24 stig.
Kjarninn
Blikar voru yfir meira og minna allan leikinn og spiluðu vel í 39 mínútur eins og Pétur orðaði það í viðtali eftir leik. Forskotið fór tvisvar upp í 18 stig og í bæði skiptin höfðu líklegast flestir í húsinu þá tilfinningu að sigurinn væri svo gott sem í höfn hjá Blikum. Kannski er vandamálið það að Blikar eru óvanir því að vinna mikið af leikjum í efstu deild og eiga eftir að læra að klára leiki sem þeir hafa full tök á. Pétur benti einmitt á að mikill reynslumunur er á leikmannahópum liðanna.
Sigur Stjörnunnar í kvöld hlýtur að bragðast einstaklega vel, betur en margir aðrir sigrar. Liðið var nánast komið í vonlausa stöðu en það barðist áfram, liðinu tókst að nýta sér hæð og styrk aðeins betur eftir því sem á leið og Turner kveikti heldur betur á sér í fjórða leikhluta. Arnar tók undir það í viðtali eftir leik að það var aldeilis ekki allt sem gekk upp, liðið náði t.a.m. ekki að hægja á Blikunum að neinu ráði og það var helst slök hittni þeirra í lokin sem var eitt af stóru púslunum í geggjuðum endurkomusigri Stjörnunnar. Þegar stigin eru talin í lokin skiptir í raun engu máli hvernig þau komu.