Miðherjinn Tryggvi Snær Hlinason mun ekki leika með stórliði Valencia á næstu leiktíð. Í stað þess mun verður hann lánaður til liðs í efstu deild á Spáni þar sem möguleikar hans á að fá leiktíma eru meiri. Fréttasíðan Superdeporte greinir frá þessu í dag.
Quique Villalobos umboðsmaður leikmannsins sagði í samtali við síðuna að Tryggvi þyrfti að leika fleiri mínútur. "Ég myndi vilja sjá hann spila mun fleiri mínútur til að sýna fram á þær framfarir sem hann hefur náð. Hann hefur einungis náð að sýna það með Íslenska landsliðinu þar sem hann hefur spilað mjög vel."
Lið Valencia hefur fimm leikmenn sem allir geta spilað stöðu miðherja en franski landsliðsmaðurinn Louis Labeyrie samdi við liðið í síðustu viku. Mínúturnar sem Tryggvi hefði fengið voru því takmarkaðar.
Mikill áhugi mun vera fyrir að fá Tryggva hjá liðum í spænsku ACB-deildinni. Ekkert er frágengið en talið er að spænsku liðin Monbus Obradoiro og MoraBanc Andorra séu líklegust til að hreppa miðherjann frá Bárðardal.