Ísland lagði Slóvakíu í kvöld í Laugardalshöllinni í undankeppni heimsmeistaramótsins 2023. Liðið er því með einn sigur og eitt tap það sem af er móti.
Leikurinn fór fjörlega af stað. Mikið var skorað á upphafsmínútunum. Undir lok fyrsta leikhlutans hertust varnirnar þó og aðeins og meiri ró færðist yfir leikinn. Ljóst var þó að dagskipun íslenska liðsins var að einhverju leyti að halda hraða leiksins í hærra lagi. Ísland þremur stigum yfir eftir fyrsta leikhlutann, 17-14.
Undir lok fyrri hálfleiksins nær Ísland svo að komast skrefið á undan, mikið til vegna góðs leiks þeirra Arnars Björnssonar, sem skoraði 13 stig í fyrri hálfleiknum og Tryggva Hlinasonar, sem skilaði 14 stigum, 11 fráköstum og 5 vörðum skotum í þessum fyrri hálfleik. Ísland með níu stiga forskot þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik, 43-34.
Í upphafi seinni hálfleiksins gerði Slóvakía heiðarlega atlögu að forystu Íslands. Ísland gerir vel í að halda fengnum hlut og er áfram með níu stiga forystu fyrir lokaleikhlutann, 63-54. Í honum gerði liðið svo nóg til að sigla að lokum nokkuð öruggum 9 stiga sigur í höfn, 83-74.
Atkvæðamestur fyrir Ísland í leiknum var Tryggvi Snær Hlinson með 26 stig, 17 fráköst og 8 varin skot. Fyrir Slóvakíu var það Vladimír Brodziansky sem dróg vagninn með 16 stigum og 6 fráköstum.
Myndir / Bjarni Antonsson
Viðtöl / Helgi Hrafn