spot_img
HomeFréttirTryggvi Snær, Elvar Már og Ægir Þór ofarlega á tölfræðilistum forkeppninnar

Tryggvi Snær, Elvar Már og Ægir Þór ofarlega á tölfræðilistum forkeppninnar

Forkeppni undankeppni HM 2023 lauk í gærkvöldi með sigri Svartfjallalands gegn Danmörku. Lokastaða riðils Íslands því þannig að Svartfjallaland var í efsta sæti með fjóra sigra. Ísland í öðru með tvo og án sigurs ráku Danir lestina. Tvö lið fara því áfram úr riðlinum, Svartfjallaland og Ísland, á meðan að Danmörk situr eftir.

Úr öðrum riðlum voru það Svíþjóð, Portúgal, Lettland, Hvíta Rússland, Norður Makedónía og Slóvakía sem komust áfram. Á meðan að Lúxemborg, Rúmenía og Sviss sitja eftir.

Með lokaleik mótsins kom einnig lokaniðurstaða á tölfræði leikmanna í forkeppninni og átti Ísland nokkra í efstu sætum mótsins, en í heild voru það 16 lið sem tóku þátt í tveimur umferðum, í fyrri umferðinni voru það tveir riðlar, en í þeirri seinni fjórir.

Voru þetta 10 leikir sem Ísland lék í báðum umferðum og unnu þeir 7 þeirra, en töpuðu 3. Í þessum leikjum notaðist Ísland við 24 leikmenn.

Af stigum skoruðum að meðaltali í leik átti Ísland tvo af efstu 10. Elvar Már Friðriksson var í þriðja sæti með 17 stig að meðaltali í leik og þá var Tryggvi Snær Hlinason fjórði með 15.8 stig. Þá var Elvar Með næst bestu vítanýtingu allra í keppninni, 86.7% og Tryggvi næst bestu heildarskotnýtinguna, 64.6%.

Tryggvi tók einnig þriðju flest fráköst að meðaltali í leik, 9.4 og varði flest skot allra í leik, 2.5.

Ægir Þór Steinarsson gaf flestar stoðsendingar allra að meðaltali í leik, 5.3 og Elvar fjórðu flestar, 4.4. Sama var uppi á teningnum með stolna bolta, þar sem Ægir stal flestum boltum allra í keppninni, 1.9 í leik og Elvar öðrum til þriðju flestum, 1.8.

Í heildarframlagi átti Ísland þrjá af efstu tíu í mótinu. Tryggvi var þriðji framlagshæsti allra með 21.7 framlagsstig í leik, Elvar sá sjötti framlagshæsti með 16 og Ægir sjöundi með 14.9.

Hérna er hægt að skoða alla tölfræði Íslands í forkeppninni

Fréttir
- Auglýsing -