Það er á fleiri stöðum en á Íslandi þar sem lið eru að undirbúa sig fyrir komandi tímabil. Íslenskir leikmenn eru að koma sér fyrir hjá nýjum liðum í Evrópu en í gær mættust tveir þeirra í æfingaleik.
Tryggvi Snær Hlinason og félagar í Obradoiro tóku á móti þýska stórliðinu Alba Berlín á Spáni í gær. Martin Hermannsson leikur með liði Alba og því um íslendingaslag að ræða í Santiago de Compostela.
Tryggvi og félagar höfðu betur í spennandi leik 74-68, bæði Tryggvi og Martin voru í byrjunarliði síns liðs. Martin var næst stigahæstur í liði Alba með 12 stig á nærri 27 mínútum. Tryggvi var með 7 stig og 4 fráköst á 25 mínútum.
Þeir félagar verða svo liðsfélagar á næstu dögum þegar landsliðið kemur saman fyrir leikinn mikilvæga gegn Portúgal í forkeppni Eurobasket 2021.