Bárðdælingurinn Tryggvi Snær Hlinason var ekki valinn í NBA nýliðavalinu í nótt. Hann var á meðal fjölda leikmanna sem talið var líklegt að valin yrðu í NBA lið í nótt. Vonir stóðu til að hann yrði valinn seint í annari lotu nýliðavalsins en svo varð ekki.
,,Það eru blendnar tilfinningar að hafa ekki verið valinn í kvöld.“ Sagði Tryggvi í fréttatilkynningu sem KKÍ sendi í morgun og bætti við: „Ég undirbjó mig andlega undir að vera ekki valinn sem og að vera valinn. En núna þarf að líta fram á veginn og taka næstu skref á mínum ferli.“
Þrátt fyrir að hafa ekki verið valinn er NBA draumurinn enn á góðu lífi hjá Tryggva sem stefnir á að spila með NBA liði í framtíðinni. ,,Að vera ekki valinn veitir mér ákveðin tækifæri. Ef rétta liðið sýnir mér áhuga og er tilbúið að vinna með mér þá get ég gengið til liðs við það lið. Mín körfuboltavegferð er rétt nýhafin og lít ég björtum augum á framtíðina,“ sagði Tryggvi.
Fyrri sumardeild NBA hefst 6. júlí næstkomandi og verður fróðlegt að sjá hvort Tryggvi semji við félag í NBA fyrir það. Tekið skal fram að Tryggvi Snær er enn með samning við Valencia og líklegt þótti að hann myndi leika þar áfram þótt hann yrði valinn í nýliðavalinu.