Stjarnan lagði ÍR í Umhyggjuhöllinni í kvöld í fyrsta leik átta liða úrslita Bónus deildar karla.
Vinna þarf þrjá leiki til að tryggja sig áfram í undanúrslit keppninnar.
Það var enginn uppgjafartónn í Borche þjálfara ÍR þrátt fyrir erfiðan leik í kvöld:
Borche…töff byrjun á leiknum, Stjarnan með 20 sóknarfráköst, Kavas með 2 stig, Zarko snemma með 5 villur…þetta er algerlega ómögulegt?
,,Já…við vitum vel hversu mikilvægir Matej og Zarko eru fyrir okkur, þeir þurfa að vera í betra standi og spila betur á mánudaginn, án þeirra verður þetta erfitt. Við getum ekki treyst eingöngu á Falko eða Hákon, við þurfum framlag frá mun fleiri leikmönnum bæði sóknarlega og varnarlega. Stjarnan spilaði vissulega góða vörn á Matej en einnig valdi hann skotin sín ekki vel í byrjun og ég held að það hafi gert hann svolítið stressaðan og hann missti sjálfstraustið yfir leikinn og svo seinna í leiknum fóru ekki einu sinni opnu skotin niður. Hann er atvinnumaður sem þarf að fókusera á næsta leik og vera tilbúinn á mánudag. Það er það sem ég býst við af honum sem þjálfari liðsins. Einnig þarf Zarko að vera jákvæðari, ég er alltaf að koma honum í skilning um hvað það er mikilvægt að vera rétt stilltur andlega og haga sér vel á vellinum. Við þurfum líka á því að halda að hann komi mikið sterkari til leiks á mánudag. “
Einmitt. Er mögulegt fyrir ÍR að snúa þessu við og skapa nýtt ævintýri fyrir Breiðhyltinga?
,,Það er allt mögulegt, við þurfum að trúa og berjast meira! Við getum ekki leyft Stjörnunni að taka 50 fráköst á móti 27, það er næstum helmings munur. Þetta sýnir vel hvað gekk á inn á vellinum í kvöld.”
Já það er ansi töff. Rombley er náttúrulega stór sterk fimma…það verður alltaf svolítið vandamál fyrir þína menn?
,,Við þurfum bara að stíga betur út, við töluðum um það að við þyrftum að gera það og allir þurfa að ráðast á frákastið. Við erum með Zarko sem er kraftmikill og mikill íþróttamaður líkt og Shaquille, Matej getur alveg frákastað, Collin og Dani sömuleiðis. Ég held að við höfum ekkert að gera með það að finna afsakanir, við þurfum bara að berjast meira!“
Ég vona að leikurinn á mánudag verði a.m.k. góður leikur…
,,Já algerlega, við trúum því að við getum unnið þann leik og snúið seríunni okkur í dag!“
Sagði maður fólksins, Borche Ilievski, og honum hefur ekkert farið aftur í íslenskunni!