Það höfðu ekki margir mikla trú á gestunum frá Hafnarfirði í þriðja leik úrslitarimmunnar gegn KR í kvöld. Það var ekki að ósekju, röndóttum hefur gengið prýðilega að sýna styrk sinn í undanförnum leikjum og Brilli lýsti yfir áhuga sínum á verslunarferð í BYKO fyrir skemmstu. Þar að auki mátti efast um gagnsemi hins frábæra Kára Jónssonar vegna meiðsla. Trúin flytur hins vegar fjöll og þeir einu sem þurftu að hafa nóg af henni í kvöld var vissulega Haukaliðið sjálft.
Það var pakkað í húsinu og stuðningsmenn beggja liða vel stemmdir fyrir átökin. Gestirnir höfðu meiru að fagna fyrstu mínúturnar og komust í 3-9. Bæði lið börðust af krafti og spennan nærir alltaf varnarvinnuna frekar en sóknarleikinn. Haukar urðu fyrir barðinu á því og settu aðeins 4 stig til viðbótar í leikhlutanum á meðan einkum Brilli og Craion fundu loksins leiðina að körfu gestanna. Staðan 17-13 eftir fyrsta fjórðung.
Haukur Óskarsson setti sín fyrstu stig í upphafi annars leikhluta en þessi frábæri leikmaður hefur ekki verið að finna fjölina sína að undanförnu. Hinn gamalreyndi Kiddi Jónasar kom af bekknum með mikla orku og trú, brúkaði að vísu munn sem dómurunum líkaði ekki. Það virtist líka kveikja all-illilega í Brilla en sá drengur elskar stóru leikina og byrjaði að raða þristum! Brilli í svona ham hefur sökkt mörgum dallinum en Haukaliðið er enginn árabátur og hélt merkilega sjó. Kiddi M og Mobley gerðu ágætlega sóknarlega og SVAKALEGT varið skot hjá Hjálmari gegn Craion héldu gestunum aðeins 4 stigum frá heimamönnum – staðan 38-34 í hálfleik.
Það voru liðnar 3 mínútur af seinni hálfleik þegar Pavel braut ísinn og setti niður skot. Haukar þurftu að bíða allnokkru lengur og mjög hægt en örugglega jókst forskot heimamanna í 10 stig, staðan 48-38 þegar um 4 mínútur lifðu af leikhlutanum. Á sama tíma var Mobley sestur á bekkinn með 4 villur og útlitið býsna dökkt. Þá var eins og tappinn hafi skotist úr körfunni fyrir gestina og með snöggum 5 stigum frá Barja, stolnum bolta og auðveldum 2 stigum til viðbótar frá Hjálmari stóðu leikar 53-50 fyrir KR. Það er í raun með ævintýralegum ólíkindum að Haukum skyldi takast að vinna leikhlutann!
Það var allt á suðupunkti í síðasta leikhlutanum, rétt eins og það á að vera á þessum tíma árs. Brilli reyndi mikið að réttlæta verslunarferðina í BYKO en virtist ekki hafa valið þann rétta og ekkert vildi ofan í hjá honum. Haukar fengu hins vegar mikilvægt framlag úr óvæntri átt þar sem Guðni Heiðar setti tvær mikilvægar körfur og sú seinni kom gestunum í 5 stiga forskot þegar 4 mínútur voru eftir. Barja kom sínum mönnum svo skömmu síðar í vænlega stöðu með stórum þristi en Helgi svaraði að bragði og gestirnir þá aðeins með 1 stigs forskot og ein og hálf eftir á klukkunni. Eftir tvö víti frá Mobley setti svo Helgi annan þrist, vægast sagt af dýrari gerðinni, og jafnaði leikinn! Brilli var ekki alveg búinn að segja sitt síðasta og bætti svo 2 stigum við af línunni skömmu síðar, staðan 69-67 og 50 sekúndur eftir. Snorri fékk svo færi á að klára leikinn á línunni fyrir KR-inga þegar um 18 sekúndur voru eftir en setti bara annað skotið. Haukar þurftu því þrist og það féll í hlut Finns Atla að taka skotið og allir nema KR-ingar voru bænheyrðir! 70-70 og framlenging staðreynd!
Spennustigið var löngu komið yfir hættumörk á þessu stigi. Pavel og Darri þurftu að höndla spennuna á bekknum því þeir höfðu báðir nælt sér í fimmtu villu sína undir lok venjulegs leiktíma. Það breytti því ekki að það var allt í járnum og jafnt á öllum tölum. Akkilesarhæll hins frábæra Craions kom illilega fram í framlengingunni þar sem hann setti aðeins eitt af fjórum vítum. Finnur Atli kom sínum mönnum einu stigi yfir eftir sóknarfrákast þegar 24 sekúndur voru eftir og allir orðnir blindir og heyrnarlausir af spennu! Heimamenn fengu tvo ef ekki þrjá möguleika í síðustu sókninni en boltinn vildi ekki ofan í körfuna – Barja bætti einu stigi við í blálokin af línunni og ÓTRÚLEGUR 77-79 sigur Haukamanna staðreynd!
KR-ingar þurfa því að bíða enn um sinn eftir titlinum og Brilli verður því miður að skila helvítis sópnum! Hann átti frábæran fyrri hálfleik en náði ekki að fylgja því eftir. Hann lauk leik með 25 stig, næstur honum var Craion með 23 stig og 15 fráköst.
Hjá Haukum skilaði Mobley 23 stigum og 12 fráköstum, Finnur Atli 13 stigum og 9 fráköstum og 5 þessara stiga voru augljóslega gulls ígildi. Annars má segja að sigur þeirra hafi verið sigur liðsheildarinnar, sigur liðs sem hefur trú á því að þeir eigi séns! Það voru flestir búnir að afskrifa þá en spekingarnir spila ekki leikinn.
Algerlega geggjaður leikur og það getur enginn reynt að halda því fram að körfubolti sé ekki fegurstur allra íþrótta eftir svona veislu!
Kári Viðarsson
Myndasafn: Bára Dröfn
Úrvalsdeild karla, Úrslitakeppni
KR-Haukar 77-79 (17-13, 25-25, 11-12, 17-20, 7-9)
KR: Brynjar Þór Björnsson 25, Michael Craion 23/15 fráköst, Helgi Már Magnússon 12/12 fráköst, Darri Hilmarsson 7/5 fráköst, Pavel Ermolinskij 4/7 fráköst/9 stoðsendingar, Snorri Hrafnkelsson 3, Björn Kristjánsson 3/4 fráköst, Arnór Hermannsson 0, Vilhjálmur Kári Jensson 0, Andrés Ísak Hlynsson 0, Jón Hrafn Baldvinsson 0, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson 0.
Haukar: Brandon Mobley 23/12 fráköst, Emil Barja 16/8 fráköst/10 stoðsendingar, Finnur Atli Magnússon 13/9 fráköst, Kristinn Marinósson 9/8 fráköst, Hjálmar Stefánsson 5, Kristinn Jónasson 5/8 fráköst, Haukur Óskarsson 4, Guðni Heiðar Valentínusson 4/4 fráköst, Ívar Barja 0, Jón Ólafur Magnússon 0, Arnór Bjarki Ívarsson 0, Gunnar Birgir Sandholt 0.
Dómarar:
Viðureign: 2-1