Keflvíkingar færðu grönnum sínum úr Njarðvík sinn fimmta deildarósigur í röð í Iceland Express deild karla í kvöld þegar þrír síðustu leikir áttundu umferðar fóru fram. Lazar Trifunovic fór mikinn í liði Keflavíkur og áttu Njarðvíkingar í mesta basli með kappann sem hefur átt hvern stórleikinn á fætur öðrum síðan hann mætti í Toyota-höllina. Lokatölur í kvöld reyndust 78-72 Keflvíkingum í vil sem í fjórða leikhluta voru undir en snéru taflinu sér í vil með sterkum varnarleik. Trifunovic sem missteig sig snemma í síðari hálfleik beit á jaxlinn og kláraði leikinn með 27 stig, 15 fráköst og 3 stolna bolta.
Keflvíkingar náðu snemma smá forskoti í leiknum, Valentino Maxwell kom heimamönnum í 11-4 með gegnumbroti á meðan Njarðvíkingarnir Christopher Smith og Jóhann Árni Ólafsson nældu sér báðir í þrjár villur á nýju Íslandsmeti. Ströng lína sett í dómgæslunni í kvöld.
Þegar Jóhann Árni fór útaf í Njarðvíkurliðinu kom Magnús Þór Gunnarsson inn og var ekki lengi að skora gegn sínum gömlu félögum, stal boltanum og komst í sniðskot og minnkaði muninn í 12-10. Fyrsti leikhluti einkenndist nokkuð af mistökum á báða bóga en Keflvíkingar gerðu færri og því komust þeir í 19-12 þar sem Lazar Trifunovic gerði fjögur góð Keflavíkurstig í röð. Njarðvíkingum gekk illa með Trifunovic varnarlega sem og Hörð Axel sem setti þrist og breytti stöðunni í 22-14 og Gunnar ,,Ironman” Einarsson lokaði leikhlutanum í hraðaupphlaupi með troðslu, seigur gamli! Staðan 24-14 Keflavík í vil eftir fyrstu 10 mínúturnar.
Gunnar var ekki hættur því hann opnaði annan leikhluta með þriggja stiga körfu og staðan 27-14 Keflavík í vil en þá fóru Njarðvíkingar að taka við sér. Páll Kristinsson og Friðrik Erlendur Stefánsson lokuðu Njarðvíkurteignum og innan stundar hafði Christopher Smith jafnað leikinn í 30-30 og Njarðvík með 19-6 áhlaup fyrstu sex mínúturnar í öðrum leikhluta.
Keflvíkingar neituðu þó að láta forystuna af hendi og Hörður Axel smellti niður einum feitum og staðan því 37-34 Keflavík í vil þegar blásið var til hálfleiks. Gunnar Einarsson var með 10 stig í leikhléi og Lazar Trifunovic var með 9 stig og 8 fráköst. Hjá Njarðvíkingum var Christopher Smith með 9 stig og Friðrik Stefánsson 4 stig og 8 fráköst.
Guðmundur Jónsson jafnaði leikinn í 39-39 með þriggja stiga körfu fyrir gestina en varnarleikurinn var í fyrirrúmi. Það gerðist ekki sem oft vill verða í þriðja leikhluta, annað liðið stingur þá oft af, í kvöld var jafnt á öllum tölum, Keflvíkingar reyndar skrefinu á undan og margir hverjir supu hveljur þegar Trifunovic missteig sig í Keflavíkurliðinu. Hann neitaði þó að fara af velli, beit á jaxlinn og reyndist Keflvíkingum afar dýrmætur í kvöld.
Þriðji leikhluti var jafn og spennandi og eftir 30 mínútna leik leiddu heimamenn 59-55, lítið skorað en þéttur varnarleikur og nokkuð um stimpingar og pústra eins og við er að búast í þessum leikjum en dómarar leiksins vildu ekki sjá neitt af því og héldu strangri línu út leikinn sem olli því að nokkuð af lykilmönnum liðanna þurftu að vera á bremsunni í varnarleiknum.
Rúnar Ingi Erlingsson opnaði fyrir góða rispu Njarðvíkinga með þrist og minnkaði muninn í 59-58. Þegar tæpar níu mínútur voru til leiksloka fór Hörður Axel Vilhjálmsson svo blóðugur af velli eftir samstuð og það nýttu Njarðvíkingar til hins ítrasta.
Grænir náðu 10-2 áhlaupi og leiddu 61-65 þegar Pétur og Guðjón tóku leikhlé fyrir heimamenn. Njarðvíkingar vörðust einnig vel og sóknarleikur heimamanna var ryðgaður með Hörð utan vallar. Valentino Maxwell kynti þá undir Keflvíkingum á mikilvægum tímapunkti leiksins og jafnaði metin í 67-67 með stórum þrist. Varnarleikur Keflavíkur hrökk í gír sem og sóknarleikurinn þegar Hörður Axel kom aftur inn á parketið og skartaði þar forláta vafningi um höfuðið í boði Gunnars Arnar Ástráðssonar þeim mæta sjúkraþjálfara Keflavíkurliðsins.
Guðmundur Jónsson færði Njarðvíkingum von þegar hann setti sterkan Njarðvíkurþrist og minnkaði muninn í 75-72 þegar ein og hálf mínúta var til leiksloka. Næstu mínútuna var ekkert skorað en Trifunovic landaði sigrinum fyrir Keflavík þegar hann vann sóknarfrákast með því að blaka boltanum í leikmann Njarðvíkur og út af vellinum, 29 sekúndur eftir, ný skotklukka fyrir Keflavík og þriggja stiga munur. Nánast ómögulegt á heimavelli Keflavíkur að gera eitthvað úr þeirri stöðu og sú varð raunin, heimamenn héldu þétt að sér spilunum og nældu sér í tvö mikilvæg stig með 78-72 sigri í grannaslagnum sem var með þeim jafnari hin síðari ári.
Augljós batamerki voru á Njarðvíkingum í kvöld frá viðureignum liðsins við KR og Fjölni en leikurinn var engu að síður fimmti tapleikur liðsins og kvittaði enn fremur undir verstu byrjun félagsins í úrvalsdeild. Keflvíkingar eru hinsvegar í fantaformi með fjóra deildarsigra í röð og hafa gengið í gegnum endurnýjun lífdaga síðan Trifunovic mætti á Klakann.
Heildarskor:
Keflavík: Lazar Trifunovic 27/15 fráköst, Valentino Maxwell 16/4 fráköst/3 varin skot, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 12/12 fráköst/3 varin skot, Hörður Axel Vilhjálmsson 11/6 fráköst/7 stoðsendingar, Gunnar Einarsson 10, Þröstur Leó Jóhannsson 2, Kristján Tómasson 0, Gunnar H. Stefánsson 0, Hafliði Már Brynjarsson 0, Almar Stefán Guðbrandsson 0, Ragnar Gerald Albertsson 0, Sævar Freyr Eyjólfsson 0.
Njarðvík: Christopher Smith 15/10 fráköst/6 varin skot, Guðmundur Jónsson 14, Friðrik E. Stefánsson 9/11 fráköst, Magnús Þór Gunnarsson 9, Páll Kristinsson 6/6 fráköst, Lárus Jónsson 6, Jóhann Árni Ólafsson 6/4 fráköst, Rúnar Ingi Erlingsson 3, Egill Jónasson 2, Kristján Rúnar Sigurðsson 2, Ágúst Hilmar Dearborn 0, Hjörtur Hrafn Einarsson 0.
Dómarar: Rögnvaldur Hreiðarsson, Björgvin Rúnarsson
Ljósmynd/ Jón Björn Ólafsson: Lazar Trifunovic reyndist Njarðvíkingum erfiður í kvöld.
Umfjöllun: Jón Björn Ólafsson – [email protected]