Höttur hafði betur gegn Þór á Egilsstöðum í Bónus deild karla, 103-95.
Eftir leikinn sem áður eru Höttur fallnir úr deildinni, en þeir eru í 11. sætinu með 10 stig. Þór er hinsvegar enn í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni, í 9. sætinu með 18 stig líkt og ÍR og KR sem eru í 7. og 8. sætinu.
Heimamenn í Hetti voru betri aðilinn framan af leik. Leiddu með samt aðeins með tveimur stigum eftir fyrsta leikhluta og fjórum stigum í hálfleik. Seinni hálfleikurinn var öllu kaflaskiptari. Í þriðja fjórðungnum tóku Þórsarar öll völd á vellinum og voru níu stigum yfir fyrir lokaleikhlutann. Í þeim fjórða nær Höttur að koma til baka, jafna leikinn þegar um þrjár mínútur eru eftir. Ná svo að bæta enn í á lokasprettinum og vinna að lokum með átta stigum, 103-95.
Bestur í liði heimamanna í kvöld var Nemanja Knezevic með 21 stig og 11 fráköst. Þá skilaði Adam Eiður Ásgeirsson 24 stigum.
Fyrir Þór var Mustapha Heron atkvæðamestur með 25 stig og Nikolas Tomsick bætti við 19 stigum, 7 fráköstum og 7 stoðsendingum.
Tap Þórsara í kvöld var ekki að hjálpa þeim í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni gegn ÍR, KR og mögulega Keflavík. Tveir leikir þó til stefnu hjá þeim, þar sem næst mæta þeir Álftanesi úti og svo Keflavík heima í Þorlákshöfn í síðasta leik.
Sigurinn nokkuð seinn hjá Hetti, sem þó verða að fá ákveðið hrós fyrir að ná í hann, en líkt og Þór eiga þeir tvo leiki eftir í deildinni. Fyrst úti gegn ÍR áður en þeir loka tímabilinu með leik gegn Álftanesi heima á Egilsstöðum.