spot_img
HomeFréttirTopppakkinn þéttist

Topppakkinn þéttist

Það þéttist heldur betur pakkinn á toppi Iceland Express deildar karla í kvöld, Snæfell og Grindavík unnu leiki sína örugglega gegn Keflavík og KR og þá vann Breiðablik ÍR í fyrsta leik nýrra þjálfara.

 
Grindvíkingar unnu nokkuð öruggan sigur á toppliði KR, 84-67. Þorleifur Ólafsson var stigahæstur heimamanna með 19 stig en Brynjar Þór Björnsson skoraði 16 fyrir gestina. Pavel Ermolinskij lék sinn fyrsta leik fyrir KR og skoraði 3 stig og gaf 6 stoðsendingar.

Í Kennaraháskólanum var jafnt á flestum tölum í fyrri hálfleik en í þeim seinni tóku gestirnir fljótlega forystu sem þeir létu aldrei af hendi og unnu 100-86. Jeremy Caldwell skoraði 25 stig fyrir Blika og tók að auki 12 fráköst. Michael Jefferson var stigahæstur ÍR inga með 26 stig. Þeir félagar Sævaldur Bjarnason og Guðni Hafsteinsson byrja því vel í sínum fyrsta leik sem þjálfarar í efstu deild karla.

Hlynur Bærginsson var sjóðheitur í Fjárhúsinu, skoraði 30 stig og tók 17 fráköst þegar Snæfell vann Keflavík 106-86. Keflavík byrjaði leikinn betur og komst mest 9 stigum yfir en seinni hálfleikur var eign heimamanna. Hörður Axel Vilhjálmsson og Sigurður G. Þorsteinsson skoruðu 21 stig hvor fyrir Keflavík en að auki gaf Hörður 9 stoðsendingar.

Staðan er því þannig að á liði 1 og 6 í deildinni munar aðeins 4 stigum.

 
 
 
Mynd: Eyþór Benediktsson
Fréttir
- Auglýsing -