spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaToppliðinu rústað í Garðabæ

Toppliðinu rústað í Garðabæ

Keflvíkingar mættu í heimsókn í Mathús Garðabæjar höllina í kvöld, í fimmtu umferð Domino’s deildar karla, þar sem þeir mættu heimamönnum í Stjörnunni. Fyrir leik sátu Keflvíkingar í efsta sæti deildarinnar með fullt hús stiga, en Stjörnumenn voru í öðru sæti með eitt tap. Því var búist við hörkuleik í Garðabænum, enda tvö af betri liðum deildarinnar að mætast.

Þær væntingar og vonir urðu hins vegar fljótt að engu. Stjörnumenn einfaldlega pökkuðu gestunum úr Reykjanesbæ saman, til að orða það pent, og höfðu algera yfirburði frá upphafi til enda. Heimamenn settu sjö þrista í fyrsta leikhluta og leiddu 31-9 að honum loknum, og leiddu í hálfleik með 36 stigum, 66-30. Stjörnumenn skoruðu því fleiri stig bæði í fyrsta og öðrum leikhluta en Keflvíkingum tókst að skora allan fyrri hálfleik!

Í seinni hálfleik var sama uppi á teningnum, og höfðu heimamenn aukið forskotið í 44 stig, 78-34, um miðbik þriðja fjórðungs. Eftir það skiptu bæði lið út sínum lykilmönnum og að lokum höfðu Stjörnumenn að lokum vægast sagt öruggan fjörutíu stiga sigur, 115-75.

Hvers vegna vann Stjarnan?

Það var ljóst allt frá uppkastinu hvort liðið myndi fara með sigur af hólmi. Stjörnumenn léku á als oddi, á meðan gestirnir voru ekki mættir til leiks andlega, og höfðu allt á hornum sér allan leikinn. Garðbæingar tefldu fram nýjum erlendum leikmanni, AJ Brodeur, sem hefur varla mætt á eina æfingu hjá Garðabæjarliðinu en hefði líklega ekki getað beðið um betri leik til að koma sér á blað hjá Stjörnunni en leik kvöldsins, því mótspyrnan var nákvæmlega engin.

Bestur

Erfitt er að taka einn leikmann út fyrir sviga í liði Stjörnunnar, enda voru allir leikmenn góðir í þeirra liði. Ægir Þór Steinarsson skilaði þrefaldri tvennu, 17 stigum, tíu fráköstum og tíu stoðsendingum, Mirza Sarajlija skoraði 18 stig með 5 þrista í sex tilraunum, Alexander Lindqvist skoraði 15 stig með þrjá þrista úr jafnmörgum tilraunum, Hlynur Bæringsson slökkti gjörsamlega á Dominykas Milka í vörn Stjörnunnar og AJ Brodeur skoraði 19 stig í fyrsta leik sínum fyrir Garðbæinga.

Hjá Keflvíkingum skoraði Deane Williams 17 stig, en lykilmenn gestanna vilja líklega gleyma þessum leik sem allra fyrst.

Framhaldið

Stjörnumenn eru nú komnir á topp Domino’s deildar karla og munu næst spila við Grindavík, sunnudaginn 31. janúar. Sama kvöld taka Keflvíkingar á móti ÍR.

Fréttir
- Auglýsing -