Keflavík lagði nýliða Stjörnunnar í Umhyggjuhöllinni í kvöld í 20. umferð Subway deildar kvenna, 63-102.
Upphaflega átti leikurinn að fara fram í Blue höllinni í Keflavík, en vegna náttúruhamfarana á Reykjanesi var brugðið á það ráð að færa leikinn í Garðabæ.
Leikurinn var sá fyrsti sem Keflavík leikur í nýskiptri A deild Subway deildarinnar, en þær eru eftir sigurinn sem áður í efsta sætinu, nú með 15 sigurleiki í 17 leikjum. Stjarnan er hinsvegar í neðri hluta A deildarinnar með 9 sigra eftir 18 leiki.
Keflavík var sterkari aðilinn nánast allan leik kvöldsins. Þær leiddu með 13 stigum eftir fyrsta leikhluta, 16-29 og 11 stigum í hálfleik, 39-50. Með gífurlega sterkum upphafsmínútum í seinni hálfleiknum gera þær svo nánast útum leikinn, en forysta þeirra er komin í 28 stig fyrir lokaleikhlutann, 50-78. Í þeim fjórða lætur Keflavík svo kné fylgja kviði og sigra að lokum gífurlega örugglega, 63-102.
Fyrir heimakonur var Kolbrún María Ármannsdóttir atkvæðamest með 23 stig og 8 fráköst. Fyrir gestina úr Keflavík var það Birna Valgerður Benónýsdóttir sem dró vagninn með 21 stigi og 6 fráköstum.
Þar sem það eru 5 lið í þessum efri hluta deildarinnar þarf eitt lið að sitja hjá í hverri umferð. Síðast var það Keflavík, nú er það Njarðvík og næst verður það Grindavík. Stjarnan og Keflavík munu því bæði leika í næstu viku. Stjarnan komandi þriðjudag 13. febrúar gegn Njarðvík í Ljónagryfjunni og Keflavík degi seinna miðvikudag 14. febrúar gegn Haukum í Ólafssal.