Haukar höfðu betur gegn Stjörnunni í Ólafssal í 12. umferð Bónus deildar kvenna, 89-71.
Haukar eru sem áður í efsta sæti deildarinnar með 20 stig á meðan Stjarnan er eftir leikinn í 6. til 7. sætinu með 8 stig líkt og Valur.
Heimakonur í Haukum leiddu leik dagsins frá upphafi til enda. Eftir fyrsta fjórðung voru þær níu stigum yfir og þegar í hálfleik var komið var munurinn 12 stig.
Stjarnan nær eilítið að bíta frá sér í upphafi seinni hálfleiksins og vinna þær forskotið niður í fimm stig fyrir lokaleikhlutann. Í honum er þó ekki hægt að segja þær hafi mikið séð til sólar. Hægt og bítandi ná heimakonur að bæta í og breikka bilið aftur. Niðurstaðan að lokum nokkuð öruggur sigur toppliðs Hauka, 89-71.
Atkvæðamest fyrir Hauka í leiknum var Lore Devos með 25 stig og 8 fráköst. Þá bætti Tinna Guðrún Alexandersdóttir við 24 stigum og 4 fráköstum.
Fyrir Stjörnuna var Denia Davis Stewart atkvæðamest með 21 stig, 11 fráköst og Kolbrún María Ármannsdóttir henni næst með 15 stig.