11:15
{mosimage}
Tveir leikir fara fram í Iceland Express deild karla í körfuknattleik í kvöld og hefjast þeir báðir kl. 19:15. Í Ljónagryfjunni í Njarðvík taka heimamenn á móti KR í toppslag deildarinnar en í Þorlákshöfn mætast Þór og Haukar í botnslag deildarinnar.
KR hafði betur síðast þegar þeir léku gegn Njarðvíkingum í deildinni en þá lauk leik liðanna með 75-69 sigri KR í DHL-Höllinni. Þeir röndóttu verða án baráttujaxlsins Skarphéðins Ingasonar í kvöld sem nefbrotnaði á dögunum. Njarðvíkingar eru á blússandi siglingu um þessar mundir og lögðu Keflavík í Sláturhúsinu á föstudag og höfðu þar með sinn ellefta sigur í röð í deildinni. Bæði KR og Njarðvík eiga leik til góða á Skallagrím sem lagði Grindavík í gær og komust Skallarnir þar með í 2. sætið. Með sigri í kvöld kemst KR á topp deildarinnar en hafi Njarðvík betur auka þeir forskot sitt í deildinni um fjögur stig og komast því nær deildarmeistaratigninni.
Þór og Haukar berjast fyrir tilverurétti sínum í deildinni en liðin eru á botninum ásamt Fjölni öll með 8 stig. Það lið sem hefur sigur í kvöld tekst að lyfta sér af botninum, í bili. Þegar liðin mættust að Ásvöllum voru það Haukar sem höfðu nauman 87-81 sigur. Þórsarar hafa þó verið að bíta ágætlega frá sér á heimavelli og fyrir skemmstu lögðu þeir Snæfell þar í framlengdum leik. Haukar hafa ekki riðið feitum hesti frá útivöllunum í vetur og því verður þetta mikill baráttuleikur tveggja liða sem mega ekki við því að tapa í kvöld.