Háspenna, lífshætta var í Þorlákshöfn í kvöld þegar lið Þórs fékk Tindastól í heimsókn. Nokkur saga er á milli þessara liða þar sem þau hafa mæst í úrslitakeppninni síðustu ár auk þess sem Baldur Þór Ragnarsson sem er uppalinn hjá Þorlákshöfn þjálfar Tindastól í dag.
Gangur leiksins
Þórsarar voru með tangarhald á leiknum í fyrri hálfleik, liðið leiddi lungan úr hálfleiknum en Tindastóll var alltaf í hálsmálinu á þeim. Munurinn á liðunum var aldrei mikill en hæsti munur sem lið náði í dag var einu sinni 11 stig.
Tindastóll kom sér inní leikinn í seinni hálfleik og náðu fínu áhlaupi í byrjun fjórða leikhluta þar sem Jaka Brodnik lék á allsoddi. Upphófust æsilegar lokamínútur þar sem liðunum tókst ekki að sækja sigur fyrir lokaflautið. Staðan að venjulegum leiktíma loknum 93-93.
Framlengingin var æsileg og mátti litlu muna. Þórsarar virtust vera með leikinn í höndum sér þegar 38 sekúndur voru eftir og þeir með fjögurra stiga forystu. Þá var komið að hlut Nick Tomsick. Hann sótti sér sniðskot og tvö stig en þá voru 24 sekúndur eftir, Þór með boltann og voru 2 stigum yfir. Í stað þess að bíða eftir að fá brotið þá tapaði Halldór Garðar boltanum í hendurnar á Brodnik, kom honum beint á Tomsick sem setti opið þriggja stiga skot. Fimm stig á fimm sekúndum varð niðurstaðan. Til gamans má geta að Nick hafði á þessum tímapunkti sett eina þriggja stiga körfu í 12 tilraunum. Þór náði ekki að klóra í bakkann og 103-104 sigur Tindastóls því staðreynd.
Atkvæðamestir
Jaka Brodnik var besti maður vallarins í kvöld. Hann endaði með 25 stig, 5 fráköst og 7 stoðsendingar á sama tíma og hann var gríðarlega öflugur á varnarhelmingi. Shawn Glover var einnig sterkur með 28 stig.
Hjá Þórsurum var Adomas Drungilas magnaður með 28 stig, 17 fráköst og 7 stoðsendingar. Callum Lawson var einnig flottur með 24 stig. Þá er ekki hægt að gera annað en að nefna Styrmir Snær Þrastarson sem hreif alla með sér.
Hvað gerist næst?
Þessi sigur var lífsnauðsynlegur fyrir Tindastól, eftir töp í þremur af síðustu fjórum leikjum liðsins var mikilvægt að liðið finndi sigurtilfinningu á ný. Það var allt annað að sjá til liðsins frá síðasta leik og mun meiri ákefð í öllum þeirra aðgerðum. Antanas Udras var meiddur í leiknum og spilaði ekkert. Þrátt fyrir að hann sé flottur leikmaður þá hefur Baldur verið að spila með hann og Glover inná á sama tíma sem hefur ekki gengið nægilega vel. Það má því segja að meiðsli Udras hafi einfaldað róteringu Tindastóls til hins betra. Tindastóll mætir lánlausum Haukum í næstu umferð.
Þór hafði unnið þrjá sterka leiki fyrir þennan og hefðu þeir getað stimplað sig rækilega inní deildina með sigri í dag. Að lokum voru þeir sínir verstu óvinir í kvöld þegar mest á reyndi. Leikmenn tóku rangar ákvarðanir, mikið af drippli í sóknum, lítið flæði og gerði þannig vörn Tindastóls auðveldar fyrir. Auðvitað munaði um það að Larry Thomas fór útaf með fimm villur í fjórða leikhluta en Þórsarar gerðu ekkert verr án hans. Liðið er á endaum í flottri vegferð og með nokkra af skemmtilegustu leikmönnum deildarinnar og því lið sem allir vilja horfa á. Næsti leikur Þórs er á Hlíðarenda gegn Val.