Tómas Valur Þrastarson hefur verið valinn í nýliðaúrval WCC deildar bandaríska háskólaboltans, en um er að ræða þá fimm nýliða sem taldir eru hafa staðið sig best í deildinni í vetur.
Tómas Valur leikur fyrir Washington State Cougars, en þeir hafa unnið 18 leiki og tapað 13 það sem af er tímabili, en framundan hjá þeim er úrslitakeppni deildarinnar, sem getur skorið úr um hvort liðið fer í lokaúrslit háskólaboltans, Marsfárið.
Á tímabilinu hefur Tómas leikið alla 28 leikina, byrjað inná í 10 þeirra og leikið rúmlega 20 mínútur að meðaltali í leik. Á þeim hefur hann skilað 4 stigum, 3 fráköstum og stoðsendingu að meðaltali, en ein af betri frammistöðum hans í vetur var á dögunum er lið hans lék gegn stórliði Gonzaga þar sem Tómas Valur var með 12 stig, 3 fráköst og 2 stoðsendingar.