Miðherjinn knái í Stjörnunni, Tómas Þórður Hilmarsson hefur komist á styrk hjá Francis Marion háskólanum í Suður Karolínu, Bandaríkjunum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Stjörnunni á Facebook. Tómas mun því ekki leika með Stjörnunni á næstu leiktíð heldur stunda nám og spilar körfubolta þar næstu árin.
Francis Marion spilar í 2. deild bandaríska háskólaboltans og er í Peach Belt riðlinum svokallaða.
Tómas var afar mikilvægur fyrir Stjörnuna í vetur og ekki síst í úrslitakeppninni í viðureign liðsins gegn Njarðvík sem lauk í oddaleik í Ásgarði. Tómas skoraði 6,5 stig að meðaltali í vetur og tók 7 fráköst. Framlag hans var þó ekki alltaf bersýnilegt á tölfræðiskýrslu leikjanna því barátta og fórnfýsi er hans aðalsmerki.
"Tómas er annar leikmaður Stjörnunnar sem kemst út í háskóla á styrk, í fyrra fór Dagur Kár en þeir eru báðir úr hinum magnaða ´95 árgangi," segir í fréttatilkynningunni. "Þetta er rós í hnappagat þeirra þjálfara og annarra sem komið hafa að uppbygginu körfunnar í félaginu og það eru fleiri krakkar úr Stjörnunni á leiðinni út á næstu árum ef fram heldur sem horfir. Við erum bara rétt að byrja."
Mynd: Tómas Þórður í baráttu við Jeremy Atkinson, leikmann Njarðvíkur. (Bára Dröfn)