,,Við höfum verið að byrja frekar slakt í seinustu leikjum en seinustu tapleikir hafa þétt okkur betur saman og við vissum að við ættum að taka þennan leik og það var bara allt annar andi í okkar hóp heldur en undanfarna leiki,“ sagði Tómas Heiðar Tómasson í samtali við Karfan.is eftir 81-93 sigur Fjölnis á Breiðablik í Iceland Express deild karla. Tómas átti glimrandi dag í liði Fjölnis og skoraði 17 stig í leiknum og var sérlega skeinuhættur í síðari hálfleik.
,,Við eigum einn leik eftir og það er heima gegn Tindastól og þar ætlum við okkur sigur og svo verðum við bara að sjá hvernig fer,“ sagði Tómas en á þetta Fjölnislið erindi í úrslitakeppnina?
,,Alveg klárlega, við höfum bara sýnt það í vetur að við getum unnið hvern sem er en það vantar samt meiri stöðugleika í liðið hjá okkur en ég tel að það sé komið núna,“ sagði Tómas sem kom inn af bekknum í kvöld en er hann farinn að eygja sæti í byrjunarliðinu eða kann hann vel við að koma inn sem sterkur sjötti maður?
,,Ég er ekkert mikið að pæla í því eins og er því á meðan liðið er að spila vel þá er mér alveg sama.“