Keflavík skorar að meðaltali 118 stig í 100 sóknum (ORtg) á þessari leiktíð sem gerir liðið það sjötta skilvirkasta í sögu úrvalsdeildar karla (frá því tölfræði var fyrst skráð í deildarkeppni efstu deildar 1989). Keflavík skoraði 116,8 stig í 100 sóknum áður en Hörður Axel meiddist en 119,3 í þeim þremur leikjum vetrarins sem hann hefur ekki tekið þátt í. Staðreynd sem skýtur skökku við þar sem Keflavík hefur spilað mun verr fyrstu tveimur leikjunum á meðan Hörður situr á bekknum. Keflavík skoraði 114 stig í 100 sóknum á meðan Hörður var inn á í þessum tveimur leikjum en fékk á sig 108,7 á sama tíma – eða mismunur upp á 5,3 stig. Þegar hann sat á bekknum skoruðu Keflavík 92,2 stig í 100 sóknum en fengu hins vegar á sig 126,7 stig – eða mismunur upp á -34,5 stig. Þessi aukna skilvirkni Keflavíkur í síðustu þremur leikjum deildarkeppninnar kemur þrátt fyrir aukinn leikhraða hjá liðinu en liðið spilar að meðaltali 79,8 sóknir í leik sem er töluvert nær meðaltali deildarinnar (80,9) en í hinum tveimur en þá spilaði Keflavík 75,1 sókn í leik.
Höttur hefur aldrei spilað skilvirkari sóknarleik í úrvalsdeild karla með 115,8 stig í 100 sóknum. Höttur hefur sigrað síðustu 3 leiki sína í deildinni og er munurinn munar þar um varnarleikinn því liðið er að halda andstæðingum sínum í 106,1 stigi í 100 sóknum sem er þónokkuð undir meðaltali deildarinnar í síðustu þremur umferðum (109,5). Lykillinn fyrir hött virðist vera hægari leikur því liðið spilaði 71,8 sóknir að meðaltali í þessum þremur sigurleikjum en 77,3 í hinum tveimur. Það hefur verið mikill stígandi í frammistöðu Hattar í úrvalsdeild frá upphafi og eins og sjá má á myndinni hér að neðan þá er liðið í fyrsta skiptið með jákvætt Net Rating. Höttur tapaði 5 af 15 tapleikjum sínum árið 2021 í fjórða leikhluta (þ.e var yfir í lok þriðja leikhluta en tapaði samt leiknum). Annar af tapleikjum Hattar í vetur tapaðist í fjórða leikhluta.
Breiðablik hefur heldur betur snúið blaðinu við hvað nettó skilvirkni varðar á þessari leiktíð. Liðið hefur gefið eftir í sóknarskilvirkninni (115,7 í fyrstu fimm leikjum síðustu leiktíðar á móti 110,7 á þessari) en hefur aftur á móti hert vörnina til muna með 103 stig andstæðings í 100 sóknum á móti 119,8 í fyrstu fimm leikjum síðustu leiktíðar. Allt þetta á svimandi 92,1 sóknar leikhraða í hverjum leik. Viðbót Julio De Assis í hópinn virðist hafa mest áhrif á vörnina því liðið er heilum 13,9 stigum skilvirkara í vörn á meðan hann er á vellinum (100,0) heldur en þegar hann situr á bekknum (113,9). Sóknarleikurinn verður hins vegar umtalsvert óskilvirkari með De Assis á vellinum (99,9) heldur en annars (120,6). Nettó eru Blikar sléttir með hann á vellinum (-0,1) en þónokkuð betri án hans (6,7). Pétur Ingvarsson virðist hins vegar búinn að finna hárrétta blöndu á uppstillingum liðsins og ber árangurinn þess vitni með fjóra sigra á móti einu tapi í öðru sæti deildarinnar. Lykilmaður liðsins er eftir sem áður Everage Richardson með nettó 7,6 á vellinum og -7,7 utan vallar.
Þór Þorlákshöfn er enn án sigurs í Subway-deild karla eftir fimm leiki. Vandamál þeirra virðist ekki vera sóknarleikurinn þar sem liðið leiðir deildina í þriggja stiga nýtingu, er þriðja skilvirkasta sóknarlið deildarinnar með 113,0 stig í 100 sóknum og við miðju deildar út frá fjórþáttagreiningu. Þórsarar eru hins vegar afar slakt varnarlið út frá þessum tölfræðiþáttum. Lakasta varnarliðið með 117,6 stig andstæðings í 100 sóknum og lakasta varnarlið deildarinnar út frá fjórþáttagreiningu. Andstæðingar Þórs hitta vel fyrir innan þriggja stiga línuna eða 59% en frekar illa fyrir utan hana eða 34,1%. Það sem hins vegar hrópar á mann hvað varnarleik liðsins varðar er hraðaupphlaupstölfræði andstæðinga Þórs. Þeir skora 15,4 stig að meðaltali í hraðaupphlaupum – næstmest allra liða í deildinni. Þórsarar virðast eiga erfitt með að byrja leikina af krafti en uppsafnaður stigamunur í fyrsta fjórðung hjá Þór Þorlákshöfn er -56 stig sem er langsamlega mesti neikvæði stigamunur í einhverjum fjórðung í deildinni það sem af er leiktíð.
Haukar leiða Subway-deild kvenna í skilvirkni bæði hvað varðar fjórþáttagreiningu og einnig stigum skoruðum í 100 sóknum – þrátt fyrir að vera í öðru sæti deildarinnar á eftir Keflavíkurstúlkum sem þær virðast ekki geta sigrað. Keflavík er taplaust í deildinni og spilar með fótinn á bensíngjöfinni því liðið er það hraðasta í deildinni (pace 85,6) – þvert á karlalið Keflavíkur sem er þriðja hægasta lið Subway-deildar karla.
Íslandsmeistarar Njarðvíkur í Subway-deild kvenna hafa ekki sýnt sömu yfirburði og á síðasta ári en munurinn er einna mestur í varnartölfræði liðsins. Njarðvík er næstlakasta varnarlið deildarinnar samkvæmt fjórþáttargreiningu en liðið var það næstskilvirkasta á síðustu leiktíð út frá sama mælikvarða.
Frekara yfirlit yfir skilvirkni í íslenskum körfubolta:
Fjórþáttagreining Subway-deildar karla
Fjórþáttagreining Subway-deildar kvenna
Fjórþáttagreining 1. deildar karla
Fjórþáttagreining 1. deildar kvenna
Skilvirkni leikmanna í Subway-deild karla
Skilvirkni leikmanna í Subway-deild kvenna