spot_img
HomeFréttirTölfræðileiðtogar íslenska liðsins

Tölfræðileiðtogar íslenska liðsins

 

Undraverð frammistaða íslenska landsliðsins í undankeppni EuroBasket 2017 var svo sannarlega ekki aðeins tveimur leikmönnum að þakka. Þó Hlynur Bæringsson hafi skilað frammúrskarandi tölum og að Martin Hermannsson hafi ítrekað verið valinn í úrvalslið umferða, sáu það allir sem fylgdust með liðinu að þarna var um hreinræktaða liðssigra að ræða. 

 

Hér að neðan förum við þó lauslega í gegnum helstu tölfræðiþætti leikmanna liðsins á mótinu.

 

 

Mínútur:

Fyrir mótið var ákveðið að hafa 14 leikmenn í hóp, en leyfilegt að hafa 12 á skýrslu fyrir hvern leik. Að lokum voru það 7 leikmenn sem að spiluðu alla leikina 6, þeir Brynjar Þór Björnsson, Haukur Helgi Pálsson, Martin Hermannsson, Logi Gunnarsson, Hörður Axel Vilhjálmsson, Hlynur Bæringsson og Kristófer Acox.

 

Af leikmönnum liðsins spilaði fyrirliðinn Hlynur Bæringsson flestar mínúturnar, eða 202 (33.6 í leik). Annar var Haukur Helgi Pálsson með 188 (31.3 í leik) og þriðji Martin Hermannsson með 187(31.2 í leik)

 

Samanborið við leikmenn hinna liðanna á mótinu var Hlynur með næstflestar mínútur spilaðar á meðan að Haukur var í 7. sæti og Martin í því 8. Því kannski ekkert óeðlilegt að þeir séu títtnefndir í flokkunum hér fyrir neðan.

 

Stig:

Ísland setti í heildina 466 stig á mótinu. 159 stig komu fyrir utan þriggja stiga línuna þar sem að liðið var með 34% nýtingu. 216 stig komu úr tveggja stiga skotum þar sem að liðið var með 51.9% nýtingu. 91 stig kom af vítalínunni þar sem að liðið var með 66.4% nýtingu. Heildarskotnýting liðsins var 44.2%.

 

Stigahæstur fyrir liðið var Haukur Helgi Pálsson með 96 stig (16 að meðaltali), annar var Martin Hermannsson með 85 stig (14.2 að meðaltali) og þriðji Hlynur Bæringsson með 80 stig (13.3 að meðaltali)

 

Skotnýting:

Við gefum okkur það að leikmenn verði að hafa reynt 8 skot eða fleiri til þess að það sé tekið tillit til þess að telja þá upp í þessum flokk. Það gerum við alveg án þess þó að vilja gera neitt minna úr 100% nýtingu þeirra Ægirs Þórs Steinarssonar úr þristum (1/1), Elvars Márs Friðrikssonar úr vítum (5/5) eða Sigurðs Þorsteinssonar úr skotum inni í teig (3/3)

 

Martin Hermannsson var með bestu þriggja stiga nýtingu liðsins. 8 skota hans rötuðu rétta leið af þeim 14 sem að hann skaut, sem gefur honum þriðju bestu þriggja stiga nýtingu allra á mótinu, eða um 57%. Næstur á eftir honum í íslenska liðinu var Elvar Friðriksson (9. í heildina á mótinu) með 50% nýtingu og þar næstur Logi Gunnarsson (40. í heildina á mótinu) með 41.6% nýtingu. Það skal þó tekið fram að Logi tók helmingi fleiri skot en Martin og fjórum sinni fleiri skot en Elvar á mótinu.

 

Hörður Axel Vilhjálmsson var besta vítaskytta liðsins á mótinu, setti niður 10 af 12 skotum sínum af línunni, var með 83.3% nýtingu. Annar var Haukur Helgi Pálsson, en hann tók mun fleiri skot en flestir aðrir í liðinu eða 43, skoraði hann úr 35 þeirra og var því með 81.4% nýtingu. Þriðji var Martin Hermannsson, hann hitti úr 15 af 19 skotum, 78.9% nýting.

 

Af skotum inni í teig var Hlynur Bæringsson með bestu nýtinguna, 70%. Annar var Logi Gunnarsson með 64.3% nýtingu. Þriðji var Kristófer Acox með 55.6% nýtingu.

 

Í heildarskotnýtingu (þriggja+tveggja) var það einnig Hlynur Bæringsson sem að hitti best, með 57.1% nýtingu. Sú nýting skilaði honum í fimmta sæti allra leikmanna á mótinu. Annar innan íslenska liðsins var Kristófer Acox með 55.6% nýtingu. Þriðji var Martin Hermannsson með 53.4% nýtingu.

 

 

Fráköst:

Hlynur Bæringsson var frákastahæstur í íslenska liðinu með 49 fráköst, en aðeins tveir aðrir tóku fleiri fráköst en hann samanlagt á mótinu. Annar í íslenska liðinu var Kristófer Acox með 28. Þriðji var Haukur Helgi Pálsson með 25.

 

 

Stoðsendingar:

Flestar stoðsendingar gaf Hörður Axel Vilhjálmsson, 30, en hann var sá sjöundi stoðsendinghæstur allra á mótinu. Annar hjá Íslandi var Hlynur Bæringsson með 25. Þriðji var svo Martin Hermannsson með 21.

 

 

Stolnir boltar:

Martin Hermannsson stal flestum boltum fyrir liðið, 10, en hann var sá ellefti í röðinni þar í mótinu í heild. Í öðru og þriðja sætinu innan íslenska liðsins voru svo þeir Hlynur Bæringsson og Haukur Helgi Pálsson með 7 stolna hvor.

 

 

Varin skot:

Íslenska liðið í heildina varði ekkert sérstaklega mörg skot á mótinu. Þau voru víst (samkvæmt FIBA) aðeins 10. Af þeim varði Haukur Helgi Pálsson 6, Hlynur Bæringsson 3 og það síðasta Sigurður Þorsteinsson.

 

Hérna er ítarlegri tölfræði leikmannanna

Fréttir
- Auglýsing -