Grindvíkingar rétt mörðu sigur á sprækum Tindastólsmönnum í Röstinn í gærkvöldi eftir tvíframlengdan leik. Grindvíkingar hittu skelfilega í leiknum með 38,4% nýtingu utan að velli, eFG 42,9% og TS 47,3%. Tindastólsmenn hittu mun betur en létu eftir allt of mikið af sóknarfráköstum til Grindvíkinga. Grindavík var með 28 sóknarfráköst á móti 11 hjá Tindastóli. Tindastólsmenn töpuðu boltanum alls 24 sinnum, þar af einn tapaður bolti á ögurstundu í lok leiks.
Helgi Rafn Viggósson fór á kostum í liði Tindastóls með 38 stig og 11 fráköst og uppskar 35 framlagsstig fyrir. Kíkjum aðeins nánar á tölfræðina hans Helga.
Helgi skaut 14/22 í tveggja stiga skotum eða 63,6% en var 0/1 í þriggja stiga skotum. eFG% skotnýting var 60,9% og TS% skotnýting 64,8%.
Helgi endaði 30 af 102 sóknum Tindastóls. Hann nýtti 20 þeirra til að skora sem gefur nýtingarhlutfall upp á 66,7%
Helgi skoraði 1,25 stig per sókn sem gefur ORgt upp á 125,4 – framúrskarandi skilvirkni í sókn.
Helgi tók 11 fráköst í leiknum sem var 12% allra frákasta sem í boði voru á meðan hann var inni á vellinum. Hann fór mikinn í seinni framlengingunni með 3 fráköst eða 20%.
Helgi Rafn skoraði allar sínar körfur inni í teignum og í heildina skoraði hann 14 af 22 körfum Tindastóls í teignum eða 63,6%.