spot_img
HomeFréttirTók aðeins 10 mínútur að pakka Keflavík saman

Tók aðeins 10 mínútur að pakka Keflavík saman

 
KR komst í kvöld í 2.-3. sæti Iceland Express deildar karla með sannfærandi sigri á Keflavík í DHL-Höllinni. Lokatölur í Vesturbænum voru 99-85 þar sem Marcus Walker fór mikinn með 27 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar hjá heimamönnum. Fyrri hálfleikurinn var jafn og einkenndist af baráttu en sá síðari var eign KR sem unnu þriðja leikhluta 29-7 og eftirleikurinn því auðveldur.
Heimamenn í KR voru einráðir fyrstu andartök leiksins og komust í 11-0 og þar af var Finnur Magnússon með átta af fyrstu 11 stigum KR-inga. Magnús Þór Gunnarsson kom Keflvíkingum á blað með þrist eftir rúmlega þriggja mínútna leik og annar slíkur frá Magnúsi minnkaði muninn í 13-8 svo gestirnir voru ekki lengi að jafna sig á látunum í heimamönnum.
 
Thomas Sanders hjá Keflavík og Pavel Ermolinskij voru vandræðalega lélegir í fyrsta leikhluta og án þess að fjölyrða frekar um það leiddu heimamenn 20-14 að honum loknum.
 
2-10 byrjun Keflavíkur í öðrum leikhluta kom gestunum í 22-24 og Hrafn Kristjánsson kallaði þá sína menn á bekkinn til að ráða sínum ráðum. Svæðisvörn gestanna var að reynast KR erfið og Thomas Sanders var vaknaður eftir blundinn í fyrsta leikhluta.
 
Lokasprettur fyrri hálfleiks var magnaður, glæst tilþrif og grimmileg barátta. Thomas Sanders varði t.d. sniðskot frá Marcusi Walker í nánast dónalegri hæð en heimamenn í KR leiddu 47-44 í hálfleik þökk sé að miklu leyti fyrir sprækar rispur hjá Hreggviði Magnússyni í öðrum leikhluta.
 
Marcus Walker var með 12 stig í leikhléi í liði KR og Thomas Sanders 12 stig í liði Keflavíkur. Allt stefndi í magnaðan síðari hálfleik en KR-ingar höfðu önnur plön á prjónunum.
 
Keflvíkingar héldu áfram í svæðisvörn í þriðja leikhluta en snemma varð ljóst að KR hafði fundið glufurnar. Hægt og bítandi sigu KR framúr með glæsilegri vörn og Keflavíkursóknirnar voru máttlitlar fyrir vikið.
 
Brynjar Þór Björnsson kom með tvo stóra þrista, fyrst breytti hann stöðunni í 58-46 og síðar í 63-46 og áður en heimamenn linntu látum rauf Hreggviður Magnússon 20 stiga múrinn fyrir röndótta með þriggja stiga körfu og staðan 68-46. Staðan að loknum þriðja leikhluta var svo 76-51 og vann KR þessar tíu mínútur 29-7! Málið afgreitt.
 
Í fjórða leikhluta var aldrei spurning hvort KR myndi fara með sigur úr býtum heldur hverjar lokatölurnar yrðu. Keflvíkingar klóruðu aðeins í bakkann á lokasprettinum en staðan 99-85 eftir fullar 40 mínútur.
 
Með sigrinum eru KR-ingar með 24 stig eins og Grindavík og deila því 2-.3. sæti deildarinnar með gulum sem steinlágu í Seljaskóla í kvöld. Keflvíkingar sitja því eftir í 4. sæti deildarinnar og misstu fyrir vikið innbyrðisviðureignina gegn KR í hendur Vesturbæinga.
 
 
Heildarskor:
 
KR: Marcus Walker 27/7 fráköst/6 stoðsendingar, Hreggviður Magnússon 19, Finnur Atli Magnússon 14, Pavel Ermolinskij 11/8 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 10, Skarphéðinn Freyr Ingason 4, Fannar Ólafsson 4, Jón Orri Kristjánsson 4, Ágúst Angantýsson 2, Páll Fannar Helgason 2, Ólafur Már Ægisson 2.
 
Keflavík: Thomas Sanders 24/6 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 18/5 fráköst, Jón Nordal Hafsteinsson 10, Magnús Þór Gunnarsson 8/7 stoðsendingar, Halldór Örn Halldórsson 8, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 8, Gunnar Einarsson 4, Þröstur Leó Jóhannsson 3/4 fráköst, Gunnar H. Stefánsson 2, Ragnar Gerald Albertsson 0, Almar Stefán Guðbrandsson 0, Andri Þór Skúlason 0.
 
Dómarar leiksins: Sigmundur Már Herbertsson og Rögnvaldur Hreiðarsson.
 
Punktar:
-Bæði KR og Keflavík höfðu unnið fjóra deildarleiki í röð fyrir viðureign kvöldsins.
-Fyrir leik kvöldsins var KR ósigrað á heimavelli í deildinni og svo er nú enn.
-Fyrri leikur liðanna í Keflavík fór 95-91 Keflavík í vil.
-Magnús Þór Gunnarsson og Þröstur Leó Jóhannsson í byrjunarliði Keflavíkur í kvöld á meðan Gunnar Einarsson og Jón N. Hafsteinsson byrjuðu á bekknum.
-Fannar Ólafsson var í byrjunarliði KR en hvíldi allan leikinn gegn Fjölni í síðustu umferð.
-Allir leikmenn KR á skýrslu skoruðu í leiknum eða 11 talsins, 9 leikmenn Keflavíkurliðsins komust á blað.
 
Ljósmynd/ [email protected] – Jón Orri Kristjánsson sendir hér stríðsöskur yfir leikmenn Keflavíkur.
 
Umfjöllun og myndir: Jón Björn Ólafsson – [email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -