spot_img
HomeFréttirTíundi deildarsigur Njarðvíkinga í röð: Fær þá ekkert stöðvað?

Tíundi deildarsigur Njarðvíkinga í röð: Fær þá ekkert stöðvað?

22:08 

{mosimage}

 

 

 

Njarðvíkingar lönduðu í kvöld sínum tíunda deildarsigri í röð er þeir höfðu sigur gegn Snæfellingum 77-67 í Ljónagryfjunni. Njarðvíkingar leiddu allan leikinn og höfðu að lokum verðskuldaðan sigur í leik þar sem vörnin var í fyrirrúmi enda lítið skorað á báða bóga. Jeb Ivey var sterkur í liði Njarðvíkinga í kvöld með 23 stig en Justin Shouse gerði 27 hjá gestunum. Njarðvíkingar eru sem fyrr á toppi deildarinnar og nú með 30 stig. Fátt virðist geta stöðvað Njarðvíkinga um þessar mundir og stefna þeir hraðbyr í átt að deildarmeistaratign.

 

Snæfell gerði fyrstu fjögur stig leiksins en heimamenn svöruðu þá með sex stigum í röð og eftir það létu þeir forystuna ekki af hendi. Í stöðunni 8-6 Njarðvík í vil small leikur þeirra grænu saman, bæði í vörn og sókn. Brenton Birmingham var iðinn við að stela boltum og í fjórgang stal hann boltanum í fyrri hálfleik, brunaði upp og skoraði á hinum endanum. Um miðbik fyrsta leikhluta var Njarðvík komið í 14-8 og hófu þá að keyra Snæfellinga í kaf og breyttu stöðunni í 25-10 við lok leikhlutans. Undir lok leikhlutans var Igor Beljanski betri en enginn þegar hann í tvígang fékk dæmda villu á Snæfellinga og skoraði í bæði skiptin og gerði hann því sex stig í tveimur Njarðvíkursóknum.

 

Justin Shouse reyndi hvað hann gat til að halda Snæfellingum inni í leiknum á meðan Hlynur Bæringsson hitti aðeins úr 5 af 10 teigskotum sínum. Þá var Sigurður Þorvaldsson rétt skugginn af sjálfum sér langvinnum stundum í fyrri hálfleik. Snæfell tókst þó að saxa lítið eitt á forystu heimamanna og gengu liðin til hálfleiks í stöðunni 41-30 Njarðvík í vil.

 

Brenton Birmingham gerði 12 stig í fyrrihálfleik fyrir Njarðvík en Hlynur Bæringsson var kominn með 11 stig í liði Snæfells.

 

Snemma í síðari hálfleik tóku Snæfellingar að beita svæðisvörn og gekk það þolanlega en Njarðvíkingar héldu þó ávallt um 10 stiga forskoti þar til undir lok þriðja leikhluta. Þá náðu Snæfellingar að minnka muninn í níu stig, 56-47.

 

 

{mosimage}

 

Gestirnir úr Hólminum hófu fjórða leikhluta af krafti og náðu að minnkan muninn í þrjú stig með þriggja stiga körfu frá Shouse, 56-53. Nær komust þeir þó ekki og þá aðallega fyrir tilstilli Jeb Ivey sem kom Njarðvík í 63-55 og svo 66-59 með tveimur þriggja stiga körfum. Sama hvað Snæfellingar reyndu þá tókst þeim ekki að hrifsa sigurinn úr höndum Njarðvíkinga og tíundi deildarsigur þeirra grænu því í höfn. Lokatölur leiksins 77-67 eins og áður greinir. Hjá Njarðvík voru þeir Jeb Ivey (23 stig), Brenton Birmingham (17 stig) og Igor Beljanski (14 stig) manna bestir en hjá Snæfellingum var Justin Shouse að draga vagninn með 27 stig og næstur honum var Hlynur Bæringsson með 16 stig. Ingvaldur Magni Hafsteinsson gerði 12 stig en mikið mun meira hefði þurft að koma frá honum og Sigurði Þorvaldssyni hefðu Snæfellingar ætlað sér að fara með sigur úr Ljónagryfjunni.

 

Njarðvíkingar hafa nú 30 stig í toppsæti deildarinnar en Snæfell er í 4. sæti með 24 stig. Næsti leikur Njarðvíkinga er þann 23. febrúar þegar þeir mæta Keflavík í Sláturhúsinu. Snæfell leikur næst gegn Hamri/Selfoss á heimavelli þann 22. febrúar.

 

Gangur leiksins

0-4,14-6,25-10

31-12, 34-19, 41-30

45-34, 50-42,56-47

56-53,68-61,77-67

 

 

Frétt: www.vf.is

Myndir: Jón Björn Ólafsson – [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -