Njarðvík hafði betur gegn Val í N1 höllinni í kvöld í Bónus deild kvenna, 80-90.
Eftir leikinn er Njarðvík í 2. sæti deildarinnar með 32 stig og einn leik eftir á meðan Valur endar deildarkeppnina í 5. sætinu með 18 stig.
Njarðvík leiddi leik kvöldsins lengst af. Nokkuð jafnræði var þó á með liðunum í fyrri hálfleik þar sem aðeins munaði 5 stigum eftir fyrsta fjórðung, 25-30 og 4 stigum í hálfleik, 49-53.
Gestirnir eru svo áfram skrefinu á undan inn í seinni hálfleikinn og leiða þær með 11 stigum fyrir lokaleikhlutann, 61-72. Valur nær ágætis áhlaupi í upphafi þess fjórða, en ná þó ekki að komast innfyrir 5 stiga múrinn. Á lokamínútunum hefur Njarðvík svo ágætis tök á leiknum og sigla þær að lokum nokkuð sterkum 10 stiga sigur í höfn, 80-90.
Atkvæðamestar fyrir Njarðvík í leiknum voru Brittany Dinkins með 42 stig, 9 fráköst, 8 stoðsendingar og Emilie Sofie Hesseldal með 14 stig og 15 fráköst.
Fyrir heimakonur var það Jiselle Elizabeth Valentine Thomas sem dró vagninn með 28 stigum. Henni næst var Alyssa Cerino með 20 stig og 5 fráköst.
Myndasafn (Gunnar Jónatans)