spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaTíu leikja taphrina Aþenu á enda

Tíu leikja taphrina Aþenu á enda

Aþena hafði betur gegn Hamar/Þór í Hveragerði í kvöld í 19. umferð Bónus deildar kvenna, 87-88.

Leikurinn var sá fyrsti sem liðin leika í B riðil deildarinnar eftir að henni var skipt upp, en eftir hann er Aþena þó áfram í neðsta sætinu með 8 stig á meðan Hamar Þór er sæti ofar með 12 stig.

Fyrir leik kvöldsins hafði lítið gengið hjá Aþenu, en með sigrinum náðu þær að binda endi á 10 leikja taphrinu.

Líkt og tölurnar gefa til kynna var leikur kvöldsins jafn og spennandi í lokin, en það var hann að mestu leyti allan leikinn. Í fyrri hálfleiknum var það Aþena sem náði að vera skrefinu á undan, mest var forysta þeirra 9 stig þá, en heimakonur héldu leiknum þó nokkuð jöfnum inn í hálfleikinn, 50-52.

Í seinni hálfleiknum var svo komið að Hamar/Þór að vera skrefinu á undan og náðu þær í tvígang sex stiga forskoti. Inn í brakmínútur leiksins var staðan einmitt þannig, heimakonur sex stigum á undan, 87-81 þegar tæpar tvær mínútur eru eftir. Þá nær Aþena gjörsamlega að læsa varnarlega, fá stórar körfur frá Jada Christine, Lynn Aniquel og er það síðast Dzana Crnac sem rekur smiðshöggið með sigurþrist þegar 24 sekúndur eru eftir, 87-88.

Bestar í liði Aþenu í kvöld voru Barbara Ola Zienieweska með 18 stig, 4 fráköst, 3 stoðsendingar, 4 stolna bolta og Elektra Mjöll Kubrzeniecka með 12 stig, 7 stoðsendingar og 5 stolna bolta.

Fyrir heimakonur var það Abby Beeman sem dró vagninn með 34 stigum, 10 fráköstum, 5 stoðsendingum og 7 stolnum boltum. Þá bætti Kristrún Ríkey Ólafsdóttir við 14 stigum og 6 fráköstum.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -