spot_img
HomeFréttirTitilinn í Vesturbæinn fimmta árið í röð!

Titilinn í Vesturbæinn fimmta árið í röð!

Það var rafmagnað andrúmsloft í DHL höllinni í kvöld þegar að Íslandsmeistarar KR gátu tryggt sér fimmta titilinn á jafnmörgum árum. Andstæðingarnir voru ekki af verri endanum, Tindastóll frá Sauðárkróki sem þurftu að vinna til þess að tryggja sér oddaleik fyrir norðan.

 

Það er skemmst frá því að segja að eftir sterka byrjun Tindastólsmanna sem komust í 0-7 þá voru KR einfaldlega sterkari í allt kvöld. Voru með á bilinu 10-15 stiga forystu allan leikinn sem þeir létu aldrei af hendi.

 

KR landaði að lokum sætum sigri 89-73 og íslandsmeistaratitillinn staðreynd í fimmta sinn í röð. Ótrúlegt afrek hjá Finni Frey Stefánssyni og hans mönnum.

 

Kristófer Acox var atkvæðamestur KR-inga með 23 stig og 15 fráköst auk þess að spila frábæra vörn, hjá Stólunum var Sigtryggur Arnar stigahæstur með 27 stig en Pétur Rúnar Birgisson var með 14 stig, 10 fráköst og 9 stoðsendingar.

 

Kjarninn

Fyrir utan fyrstu mínútuna þá sást hvort liðið kunni að klára svona seríu. KR spiluðu sinn bolta allan leikinn og mölluðu á góðu tempói. Spiluðu sínar sóknir vel til enda og voru agaðir varnarlega. Þeir létu boltann fljóta vel og margir leikmenn skiluðu miklu framlagi. Sauðkrækingar voru hins vegar full fljótir á sér á köflum og treystu mikið á einstaklingsframtak sinna bestu leikmanna. Þeirra Péturs, Sigtryggs Arnars og Antonio Hester. Það gekk ekki upp í kvöld.

 

 

Tölfræðin lýgur ekki

Skotnýting Tindastólsmanna í tveggja stiga skotum var einfaldlega herfileg í kvöld. Einungis 27% og þeir fóru illa að ráði sínu í auðveldum skotum og þá sérstaklega af vítalínunni í fyrri hálfleik. Það lagaðist í seinni hálfleik. KR hins vegar skutu mjög vel innan þriggja stiga línunnar eða um 57%.

Stóri munurinn liggur samt sennilega í stigaskori innan teigs, þar skoruðu KR 34 stig gegn 16 og svo skoruðu KR 17 stig eftir sóknarfráköst en Tindastólsmenn bara 2 stig. Erfið tölfræði þar.

 

 

MVP

Kristófer Acox var kjörinn mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar, verðskuldað að mati undirritaðs. Kristófer setti mark sitt á leikinn í kvöld með framúrskarandi vörn, 23 stigum, 15 fráköstum, 2 stolnum boltum og 1 vörðu skoti.

Þá má einnig minnast á framlag fyrirliðans Brynjars Þórs Björnssonar sem var lykillinn að því að skapa forystuna sem að KR lét aldrei af hendi.

 

 

Tölfræði leiksins:

Myndasafn (Bára Dröfn)

Myndasafn (Davíð Eldur)

 

Viðtöl eftir leik:

 

Umfjöllun / Sigurður Orri Kristjánsson
Mynd og viðtöl / Davíð Eldur

Myndir / Bára Dröfn

Viðtöl / Ólafur Þór Jónsson

Fréttir
- Auglýsing -