spot_img
HomeFréttirTindastóll vann sterkan sigur á FSu í Síkinu í kvöld

Tindastóll vann sterkan sigur á FSu í Síkinu í kvöld

Tindastóll tók á móti liði FSu í Síkinu í kvöld.  Leikurinn tafðist um klukkutíma vegna veðurs og ófærðar en allir komust þó að lokum á Krókinn og hægt að hefja leikinn.  Heimamenn í Síkinu voru viðbúnir erfiðum leik enda hafði lið FSu sýnt góða takta í deildinni og m.a. unnið Keflavík í Keflavík fyrir stuttu.

 

FSu skoraði fyrstu körfu leiksins en þá tóku Tindastólsmenn öll völd og renndu í 19-2 kafla og gáfu tóninn fyrir það sem var í vændum.  Varnarleikur heimamanna var til mikillar fyrirmyndar og gestirnir áttu í miklum erfiðleikum með að finna leið að körfunni.  Þeir jöfnuðu sig þó aðeins og náðu að minnka muninn í 7 stig í lok fyrsta fjórðungs. Það ver þó skammgóður vermir því Tindastóll gaf bara í og þristum fór að rigna í andlit gestanna.  Staðan í hálfleik 56-35 og eina spurningin í raun hversu stór sigur heimamanna yrði.  Vörnin var að virka frábærlega og flæði gott í sókninni.

 

Í þriðja fjórðung varð engin breyting, heimamenn héldu áfram að vera betri á nánast öllum sviðum og leiddu 82-58 fyrir lokafjórðunginn.  Gestirnir settu þrist af og til en náðu aldrei að hleypa neinni spennu í leikinn sem fjaraði út í fjórða fjórðung og öruggur 27 stiga sigur heimamanna staðreynd 107 stig gegn 80 stigum gestanna.

 

Jerome Hill fór mikinn í liði Stólanna og endaði með 32 stig og 12 fráköst.  Hill hefur vaxið gríðarlega sem leikmaður eftir erfiða byrjun.  Lewis skilaði sínu að vanda með 27 stig og Helgi Freyr átti góða innkomu og hitti úr öllum sínum skotum í leiknum, tvo þrista og 5 víti.  Pétur Rúnar stjórnaði liðinu eins og herforingi og ekki má gleyma frábæru framlagi Viðars Ágústssonar sem hélt Chris Caird algjörlega á mottunni þannig að kappinn sá skoraði einungis 9 stig í leiknum.

 

Chris Woods fór fyrir gestunum með 30 stig og tólf fráköst en var þó mistækur í skotum.  Aðrir áttu frekar dapran dag.

 

Tindastóll-FSu 107-80 (21-14, 35-21, 26-23, 25-22)
Tindastóll: Jerome Hill 32/12 fráköst, Darrel Keith Lewis 27/6 fráköst/5 stoðsendingar, Helgi Freyr Margeirsson 11, Darrell Flake 8/6 fráköst, Hannes Ingi Másson 7, Helgi Rafn Viggósson 7, Pétur Rúnar Birgisson 7/5 fráköst/7 stoðsendingar, Viðar Ágústsson 6/5 fráköst, Arnþór Freyr Guðmundsson 2, Sigurður Páll Stefánsson 0, Ingvi Rafn Ingvarsson 0, Svavar Atli Birgisson 0. 
FSu: Christopher Woods 30/12 fráköst, Hlynur Hreinsson 15/4 fráköst, Ari Gylfason 12, Gunnar Ingi Harðarson 10, Cristopher Caird 9/5 fráköst, Geir Elías Úlfur Helgason 3, Svavar Ingi Stefánsson 1, Bjarni Geir Gunnarsson 0, Hilmir Ægir Ómarsson 0, Jörundur Snær Hjartarson 0, Maciej Klimaszewski 0, Arnþór Tryggvason 0/4 fráköst. 

 

Umfjöllun: Hjalti Árnason

Myndasafn:  Hjalti Árnason

 

Mynd: Lewis var sterkur að vanda (Hjalti Árna)

Fréttir
- Auglýsing -