Leikurinn byrjaði jafnt en gestirnir frá Njarðvík tóku kipp undir lok fyrsta leikhluta og leiddu að honm loknum með 9 stigum 13-22. Þær bættu svo í forystuna í öðrum leikhluta og voru að hitta vel á meðan heimastúlkur virkuðu ráðvilltar og ekki alveg tilbúnar í ákafan varnarleik Njarðvíkinga sem stálu boltanum af þeim aftur og aftur með svæðispressu. Njarðvík náði mest 18 stiga forystu en leiddi í hálfleik með 16 stigum, 30-46.
Það var gjörbreytt Tindastólslið sem kom til leiks í síðari hálfleik og það var ljóst frá fyrstu mínútu að þær ætluðu að selja sig dýrt í þessum leik. Varnarleikurinn var frábær og í sókninni tók Tessondra Williams yfir leikinn en hún hafði haft fremur hægt um sig í fyrri hálfleik. Með mikilli baráttu nöguðu Tindastólsstelpurnar niður forskot Njarðvíkinga sem virkuðu á köflum hálf ráðvilltar og höfðu kannski átt von á því að eftirleikurinn yrði auðveldur eftir fyrri hálfleikinn. En aldeilis ekki. Tindastóll komst yfir í fyrsta skipti með frábærum þrist frá Valdísi Ósk Óladóttur þegar um fimm og hálf mínúta voru eftir og eftir það skiptust liðin á forystunni. Á lokamínútunni leit út fyrir að Njarðvík ætlaði að sigla sigrinum heim með frábærri hittni á vítalínunni og þær voru 3 stigum yfir þegar 15 sekúndur lifðu leiks eftir að Júlía hafði sett niður tvö víti. Arnoldas Kuncaitis, þjálfari Stólastelpna setti upp leikkerfi fyrir lokasóknina og þegar 6 sekúndur voru eftir fékk Eva Rún Dagsdóttir skotfæri og setti niður risaþrist og jafnaði metin við ærandi fögnuð heimamanna á pöllunum. Tessondra Williams kláraði svo leikinn fyrir heimakonur með því að skora 15 stig í framlengingunni og hún og stöllur hennar náðu að spila góða vörn á Njarðvíkurstelpurnar.
Frábær sigur heimakvenna staðreynd og vel fagnað!
Eins og áður segir var T. Williams maður leiksins, skoraði 48 stig og tók 9 fráköst. Marín Lind Ágústsdóttir átti líka frábæran leik og skilaði 20 stigum og Eva Rún var með 12 stig og þar á meðal jöfnunarkörfuna frábæru. Hjá gestunum var Kamilla Sól Viktorsdóttir atkvæðamest með 25 stig.
Mynd: Hjalti Árna – Eva Rún tryggir framlengingu með þristi