Tindastóll tók á móti Stjörnunni í fyrsta heimaleik liðsins í Bónus-deild kvenna í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Stólastúlkur höfðu tapað fyrsta leiknum gegn Aþenu en voru ákveðnar í að gera betur í kvöld.
Heimastúlkur byrjuðu leikinn gríðarlega vel, boltinn flæddi vel í sókninni og þær gerðu vel í að halda gestunum frá körfunni. Tindastóll komst í 10-0 og 16-2 áður en Stjörnustúlkur fóru að bíta frá sér en þær náðu svo 12-4 kafla með mikilli baráttu og þristar fóru að detta. Staðan 20-14 eftir fyrsta leikhluta. Annar leikhlutinn var jafnari en minna var um varnir. Stólastúlkur áttu frekar auðvelt með að spila sig í gegnum vörn gestanna og Edyta Ewa átti frábæran leik. Hjá gestunum voru Kolbrún María og Diljá að leiða vagninn.
Seinni hálfleikurinn byrjaði með barningi og liðin skiptust á körfum þar til að Tindastóll náði að rykkja frá gestunum um miðjan þriðja leikhlutann og opna 20 stiga mun sem þær gáfu ekki eftir. Þrátt fyrir nær óbilandi baráttu gestanna í Stjörnunni út leikinn var getumunurinn einfaldlega of mikill og Stólastúlkur sigldu öruggum sigri heim, lokatölur 103-77.
Hjá Stólum átti Randi frábæran leik með 32 stig og 8 fráköst en hjá gestunum voru Diljá og Kolbrún María öflugastar.
– Hjalti Árna