Tindastóll lagði Hauka í kvöld í Síkinu í 19. umferð Subway deildar karla, 84-82. Eftir leikinn eru Haukar í 4. sæti deildarinnar með 24 stig á meðan að Tindastóll er sæti neðar í 5. sætinu með 22 stig.
Leikurinn var jafn og spennandi í upphafi þar sem að gestirnir úr Hafnarfirði leiddu með 2 stigum eftir fyrsta leikhluta. Með sterkum öðrum fjórðung ná heimamenn í Tindastóli þó að jafna stöðuna og gott betur en það. Fara með 11 stiga forystu til búningsherbergja í hálfleik, 46-35.
Haukar mæta sterkari til leiks í seinni hálfleikinn en þeir höfðu klárað þann fyrri. Ná að jafna sinn hlut í þriðja leikhlutanum og munar aðeins einu stigi á liðunum fyrir lokaleikhlutann, 68-67. Upphófust æsispennandi lokamínútur þar sem jafnt var á flestum tölum.
Haukar voru tveimur stigum yfir þegar hálf mínúta var eftir en þá setur Keyshawn Woods tveggja stiga körfu og brýtur Orri Gunnarsson leikmaður Hauka á honum. Woods fær því víti að auki og kemur heimamönnum einu stigi yfir. Haukar nýta ekki tækifæri sitt til að jafna leikinn og endar Woods aftur á vítalínunni, hann setur fyrra vítið en klikkar á því seinna viljandi. Haukar þurfa því að taka mjög erfitt skot til að ná í sigur sem fór ekki ofaní.
Lokastaðan því 82-80 sigur Tindastóls. Sigtryggur Arnar var að vanda frábær í liði Tindastóls og endaði með 30 stig, þá var Keyshawn Woods með 16 stig. Í liði Hauka var Daniel Mortensen öflugastur með 19 stig og 10 fráköst, Norbertas Giga var einnig öflugur með 15 stig og 10 fráköst.
Tindastóll hefur nú unnið fjóra sigra í röð í Subway deildinni og eru á mikilli uppleið. Liðið er nú í fimmta sæti einungis einum sigri frá Haukum sem eru í fjórða sæti. Haukar töpuðu sínum öðrum leik í röð. Framundan virðist vera mikil barátta um heimaleikjarétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar milli þeirra liða sem mættust í kvöld auk Keflavíkur.