Íslandsmeistarar KR tóku á móti Tindastól í DHL-höllinni í kvöld. Liðin voru á svipuðu róli í deildinni fyrir leik en stórfréttir síðustu umferðar var tap KR gegn ÍR í Seljaskóla.
Það var einfaldlega skrýtin stemning í loftinu í Vesturbænum í kvöld. Leikurinn fór hálf undarlega af stað, lítið skorað en mikið hlaupið upp og niður völlinn án árangurs. KR fór betur af stað en Stólarnir komust í gang þegar leið á leikhlutann. Gestirnir gerðu færri mistök, komust yfir og leiddu eftir fyrsta leikhlutann. KR 18 – 23 Tindastóll.
Annar leikhlutinn var ekki mikið fyrir augað þegar kemur að stigum á töflunni en liðin gengu jöfn að stigum til klefa í hálfleik. Tindastólsmenn komu aðeins 4 stigum á töfluna á fyrstu 6 mínútunum en KR-ingar voru í raun litlu betri. Kristófer Acox kom sér í villuvandræði um miðjan leikhluta með því að fá sína aðra og þriðju villu með nokkurra sekúndna millibili. Bjartir punktir voru einnar helst innkoma hins 17 ára Þorvalds Orra Árnasonar í liði KR sem skeytti litlu um virðingu í garð eldri manna og lét finna fyrir sér á báðum endum vallarins. Eftir dræma byrjun náðu gestirnir að koma 9 stigum í viðbót á töfluna með fínum lokasóknum og gengu liðin því jöfn að stigum til klefa í hálfleik. KR 36 – 36 Tindastóll.
Þriðji leikhlutinn fór af stað með látum og þá helst fyrir tilstilli Péturs Rúnars Birgissonar í liði Tindastóls. Pétur opnaði stigareikning sinn með því að setja niður þrjár þriggja stiga körfur í röð í jafn mörgum tilraunum. Stólarnir skoruðu aðeins 13 stig í öðrum leikhluta en það tók þá rétt rúmar 3 mínútur að komast í 13 stig í þriðja leikhlutanum. Saga leiksins var að mjög miklu leiti sú að KR-ingar voru pirraðir og ósáttir við dómarana. KR gat lítið notað Kristófer Acox vegna villuvandræða og þurfti hann að tilla sér á bekkinn um miðjan þriðja leikhluta þá kominn með 4 villur og gestirnir 11 stigum yfir. Það ætlaði svo allt á annan endan þegar fyrirliði gestanna, Helgi Rafn Viggósson, fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu fyrir að stíga undir Jón Arnór Stefánsson í þriggja stiga skoti. Jón Arnór þurfti aðstoð við að komast af velli og því fór Jakob Örn Sigurðarson á línuna í hans stað. Jakob gerði sér lítið fyrir og setti niður vítin þrjú, fékk svo boltann úr innkastinu eftir vítin og setti niður þrist. Glæsileg 6 stiga sókn staðreynd en sömuleiðis ljóst að Jón Arnór yrði ekki meira með í leiknum.
Fjórði leikhlutinn fór ekki betur af stað en svo að Kristófer fékk sína fimmtu villu þegar 15 sekúndur voru liðnar af leikhlutanum. Þar með kristallaðist stemningin í KR-ingum í þessum leik en þeir voru pirraðir á andstæðingnum, dómurunum og á köflum á hvor öðrum. KR-ingar klóruðu í bakkann en Tindastóll virtist hafa yfirhöndina í fjórða leikhlutanum og lokatölur segja svipaða sögu. Það verður þó alls ekki tekið af gestunum að þeir spiluðu vel og sóttu verðskuldaðan sigur á erfiðan útivöll. Lokatölur, KR 85 – 92 Tindastóll.