Tindastóll og Grindavík áttust við í annað sinn á stuttum tíma þegar Tindastóll tók á móti Grindjánum í hörkuleik í Síkinu í kvöld. Tindastóll hafði unnið nauman sigur í Röstinni fyrr í vikunni en nú var komið að bikarkeppninni og þar getur enginn bókað neitt fyrirfram. Svo fór þó að Tindastóll hafði að lokum mun öruggari sigur en í deildarleiknum og lokatölur urðu 110-92 fyrir heimamenn sem eru þar með komnir áfram.
Grindvíkingar byrjuðu leikinn sterkt og voru yfir 25-22 að loknum 1. leikhluta. Maggi Gunn var að spila sem leikstjórnandi og átti á köflum erfitt en skilaði þó oftast sókninni af stað. 2. leikhluta unnu heimamenn með 10 stigum og voru yfir í hálfleik 57-50. Mikið skorað á báða bóga og Grindvíkingar að hitta ágætlega úr stóru skotunum. Maggi, Ólafur og Rodney Alexander leiddu vagninn og Ómar sýndi gríðarlega baráttu að vanda.
Stólarnir keyrðu á gestina í byrjun seinni hálfleiks og eftir fjórar mínútur var munurinn allt í einu orðinn 14 stig, 68-54. Sverrir tók leikhlé og Grindjánar áttuðu sig heldur betur og skoruðu næstu 13 stig og minnkuðu muninn í eitt stig á aðeins tæðum 3 mínútum. Ótrúlegur leikur körfuboltinn. Heimamenn náðu þó áttum og leiddu með 5 stigum fyrir síðasta fjórðunginn eftir mikla baráttu. Það gekk á ýmsu og m.a, kastaði Rodney Alexander upp eftir að hafa fengið högg fyrir bringspalirnar í baráttunni. Leikurinn stöðvaðist í nokkrar mínútur við þetta.
Tindastóll keyrði svo yfir gestina síðustu 5 mínúturnar og munurinn óx jafnt og þétt. Heimamenn voru að spila mjög aggressívt og stálu alls 20 boltum í leiknum með frábærum varnarleik. Lokatölur 110-92
“Við vorum að spila mjög fast, eins og við gerum alltaf” sagði Helgi Rafn Viggósson, fyrirliði Stólanna, eftir leikinn. “Við spilum eins fast og dómararnir og þrekið leyfir. Ég er afar ánægður með mitt lið í kvöld”
“Þetta var erfitt” sagði Israel Martin, þjálfari Tindastóls, eftir leikinn. “Við erum að spila þrjá erfiða leiki á stuttum tíma, fyrst Grindavík úti, svo Snæfell og nú aftur Grindavík, bæði hörkulið og menn eru þreyttir. Þeir reyndu að hægja á leiknum enda voru þeir með meidda leikmenn, engan leikstjórnanda og því eðlilegt að þeir reyni að hægja á okkur og leiknum. Við erum lið sem spilar fast og hratt og það er alltaf einhver sem stígur upp. Lewis var þreyttur enda að spila margar mínútur en Myron var frábær og Siggi (Sigurður Páll Stefánsson) og Helgarnir voru sterkir. Ég er ekki þjálfari sem fer eftir nöfnum þegar mönnum er skipt inn eða út af vellinum, þetta snýst allt um frammistöðu og vilja og að finna þá fimm sem eru hungraðir hverju sinni og vilja vinna. Ég er gríðarlega ánægður með mína menn í kvöld” sagði Israel að lokum.
Mynd: Myron Dempsey fór á kostum í kvöld
Mynd/Texti: Hjalti Árnason