Tindastóll vann gríðarlega mikilvægan sigur á Íslandsmeisturum KR í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld.
Leikurinn byrjaði ekki vel hjá heimamönnum og KR hreinlega valtaði yfir þá á fyrstu mínútunum. Þegar rúmar 7 mínútur voru liðnar af fyrsta fjórðung höfðu Tindastólsmenn einungis skorað tvær körfur og staðan var orðin 5-22 fyrir meistarana í KR. Gestirnir nánast gengu að vild í gegnum vörn heimamanna sem ekki er hægt að segja að hafi verið til staðar í fyrsta fjórðung. Gurley kom inn á fyrir Dempsey þegar tvær mínútur lifðu af fyrsta fjórðung og tveir snöggir þristar kveiktu aðeins í Síkinu þótt Helgi hafi svarað hinumegin. Staðan 13-27 eftir fyrsta fjórðung en heimamenn aðeins komnir á bragðið. Ekki dauðir enn.
Í öðrum fjórðung fór svo leikur heimamanna í gang svo um munaði og þeir skoruðu fyrstu 13 stig fjórðungsins. Pétur Rúnar og Gurley fóru hamförum og allt í einu var kominn alvöru leikur í gang í Síkinu. KR-ingar jöfnuðu sig aðeins og héldu leiknum í járnum fram að hléi ein augljóst var að andinn og viljinn var miklu meiri hjá heimamönnum. Gurley kom Tindastól svo tveimur stigum yfir í lok hálfleiksins og þakið ætlaði að rifna af Síkinu.
Heimamenn byrjuðu betur í seinni hálfleik og juku forskotið smátt og smátt. Þegar Dempsey tróð með látum til að koma heimamönnum í 61-54 varð stemmningin enn meiri og allt virtist falla með Tindastól. Munurinn jókst enn og Viðar Ágústsson kom Tindastól í 12 stiga mun fyrir lokafjórðunginn eftir að Stólarnir höfðu varist frábærlega. Staðan 66-54 og þótt KR hafi átt áhlaup, sérstaklega í upphafi lokafjórðungsins og undir lokin þá sigldu heimamenn sigrinum heim af stakri fagmennsku og gríðarlega fagnað í Síkinu.
Anthony Gurley átti frábæran leik í kvöld í liði Tindastóls og endaði með 26 stig og hitti úr 5 af 6 þriggja stiga skotum sínum í leiknum. Einnig var Lewis drjúgur með 21 stig. Pétur Rúnar stjórnaði liðinu eins og herforingi og skoraði 13 stig í öllum regnbogans litum. Þá var hann líka að skila prýðisgóðri vörn á móti Pavel Ermolinski sem fann sig engann veginn í kvöld og endaði með 4 stig. Craion og Helgi Már voru einu mennirnir hjá KR sem voru að spila af eðlilegri getu og þá var Darri drjúgur í fyrri hálfleik.
Flottur sigur hjá Tindastól sem er óðum að ná fyrra formi.
Tindastóll-KR 91-85 (13-27, 30-14, 23-13, 25-31)
Tindastóll: Anthony Isaiah Gurley 26, Darrel Keith Lewis 21, Pétur Rúnar Birgisson 13/4 fráköst/6 stoðsendingar, Myron Dempsey 11, Svavar Atli Birgisson 6/4 fráköst, Helgi Rafn Viggósson 6/9 fráköst, Viðar Ágústsson 4/4 fráköst, Helgi Freyr Margeirsson 3, Ingvi Rafn Ingvarsson 1, Sigurður Páll Stefánsson 0, Pálmi Þórsson 0, Elvar Ingi Hjartarson 0.
KR: Michael Craion 21/13 fráköst, Helgi Már Magnússon 18/4 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 13/4 fráköst, Darri Hilmarsson 11/7 fráköst/5 stoðsendingar, Björn Kristjánsson 8, Pavel Ermolinskij 4/4 fráköst/6 stoðsendingar, Þórir Guðmundur Þorbjarnarsson 4, Snorri Hrafnkelsson 4, Vilhjálmur Kári Jensson 2, Arnór Hermannsson 0.
Mynd: Pétur Rúnar sækir að körfunni. (Hjalti Árnason)