Tindastóll vann mikilvægan sigur gegn Grindavík í síðasta heimaleik sínum fyrir úrslitakeppnina í kvöld. Sigurinn var þó ekki átakalaus enda virtust heimamenn ekki búnir að jafna sig eftir sterkan sigur gegn KR í síðasta leik.
Tindastóll byrjaði leikinn ágætlega eftir að Grindavík hafði skorað fyrstu körfuna og voru komnir í 11-2 eftir góðan þrist frá Viðari eftir tæpar 3 mínútur. Grindavík vann sig þó inn í leikinn fljótlega, bæði með mikilli baráttu og vegna klaufaskapar heimamanna. Fljótlega varð ljóst að Grindavík myndi spila leikinn án síns erlenda leikmanns, Charles Garcia, en hann átti við öndunarörðugleika að stríða og mikinn verk fyrir brjósti og gat nánast ekkert tekið þátt. Í Grindavíkurliðinu er þó að finna marga baráttujaxla og þeir voru ekki komnir í Síkið til að láta valta yfir sig. Það var líkt og mótspyrna þeirra kæmi heimamönnum á óvart því Tindastólsliðið var á köflum eins og byrjendur, ekki voru sett upp kerfi í sóknarleiknum og menn voru hvað eftir annað að klikka á einföldum sniðskotum. Annar fjórðungur var líklega sá slakasti sem undirritaður hefur séð Tindastólsliðið spila í vetur og skoraði liðið einungis 15 stig í leikhlutanum. Sem betur fer fyrir heimamenn voru gestirnir jafnvel slakari og náðu einungis að skora 13 stig og staðan því 38-33 í hálfleik.
Gestir í Síkinu vonuðu að þessi vitleysa sem þeir urðu vitni að í fyrri hálfleik væri nú yfirstaðin og að heimamenn, sem voru klárlega betra liðið, myndi valta yfir gestina í seinni hálfleik. En það var öðru nær, eftir að hafa náð 9 stiga forystu snemma í 3ja fjórðung misstu heimamenn aftur hausinn og þegar tæpar 4 mínútur voru eftir af 3ja fjórðung kom Ómar Örn Grindavík 3 stigum yfir 48-51 og farið að fara um gesti í Síkinu. Tindastólsmenn hertu sig þó aðeins og Gurley og Helgi Freyr sáu til þess að þeir náðu forystunni aftur og staðan var 65-59 fyrir lokafjórðunginn eftir góðan þrist frá Helga.
Sú forysta entist þó ekki lengi og með mikilli baráttu og áframhaldandi klaufaskap heimamanna náðu Grindvíkingar komnir aftur yfir þegar 5 mínútur voru eftir 68-69. Lewis og Dempsey tóku þá á sig rögg og áttu góðan kafla sem hófst með því að Dempsey tók sóknarfrákast eftir misheppnað víti Lewis sem fylgdi því svo eftir með því að skora næstu níu stig heimamanna og skyndilega var staðan orðin 82-74 fyrir Tindastól og einungis 2 mínútur eftir. Pétur Rúnar kom svo muninum í 10 stig þegar mínúta var eftir og átti svo snyrtilega sendingu á Dempsey sem tróð í andlitið á Grindvíkingum og þar með var sigurinn í höfn. Lokastaðan 88-79 í leik sem heimamenn vonandi læra af. Grindvíkingar geta borið höfuðið hátt, Jóhann, Ómar (17 fráköst) og Þorleifur sýndu allir hörkubaráttu og Hilmir Kristjánsson skilaði 13 stigum af bekknum. Bestur gestanna var þó Jón Axel Guðmundsson sem endaði með 20 stig og 9 fráköst.
Hjá heimamönnum voru Lewis og Gurley einna skástir í stigaskoruninni og fyrirliðinn Helgi Rafn leiddi með fordæmi og reif niður 16 fráköst. Reynsla Lewis var dýrmæt á lokasprettinum og hann endaði með 19 stig.
Texti: Hjalti Árnason
Mynd: Lewis var drjúgur í lokin. (Hjalti Árnason)
Tindastóll-Grindavík 88-79 (23-20, 15-13, 27-26, 23-20)
Tindastóll: Anthony Isaiah Gurley 20/4 fráköst, Darrel Keith Lewis 19/6 stoðsendingar, Viðar Ágústsson 16, Myron Dempsey 14/8 fráköst, Pétur Rúnar Birgisson 12/4 fráköst/6 stoðsendingar, Helgi Rafn Viggósson 3/16 fráköst, Helgi Freyr Margeirsson 3, Svavar Atli Birgisson 1/4 fráköst, Pálmi Þórsson 0, Sigurður Páll Stefánsson 0, Ingvi Rafn Ingvarsson 0, Hannes Ingi Másson 0.
Grindavík: Jón Axel Guðmundsson 20/9 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 18/17 fráköst, Hilmir Kristjánsson 13, Þorleifur Ólafsson 10/4 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 8, Jens Valgeir Óskarsson 5/4 fráköst, Ingvi Þór Guðmundsson 4, Kristófer Breki Gylfason 1, Hinrik Guðbjartsson 0, Magnús Már Ellertsson 0, Daníel Guðni Guðmundsson 0, Charles Wayne Garcia Jr. 0.