spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaTindastóll fór fram á að vera dæmdur sigur vegna mistaka á ritaraborði

Tindastóll fór fram á að vera dæmdur sigur vegna mistaka á ritaraborði

Aga- og úrskurðarnefnd KKÍ tók fyrir á fundi sínum í síðustu viku kæru sem Tindastóll sendi inn vegna framkvæmdar á leik liðsins gegn Þór Akureyri í 1. deild kvenna.

Leikurinn fór fram þann 13. nóvember síðastliðinn í Síðuskóla á Akureyri þar sem lokatölurnar voru 72-65 fyrir Þór Akureyri. Krafðist Tindastóll þess að félaginu yrði dæmdur sigur og til vara að leikurinn yrði spilaður á ný. Frá þessu er greint á heimasíðu KKÍ fyrr í dag.

Samkvæmt greinargerð Tindastóls, höfðu ungir og óreyndir iðkenndur verið fengnir til þess að rita leikskýrslu og sjá um leikklukku í Síðuskóla á þessum leik. Í seinni hálfleik hafi verið skipt um aðila á ritaraborðinu og hafi verið leitað í stúkunni af afleysingu. Skýrslan var með það mikið af rangfærslum að dómarar leiksins, Helgi Jónsson og Hjörleifur Ragnarsson, ákváðu á milli þriðja og fjórða leikhluta, að leikskýrslan skyldi yfirfarin og lagfærð og til þess voru notaðar upplýsingar frá þeim er annaðist tölfræði.

Í greinargerðinni segir einnig: „Í ljós kom að tölfræði leiksins var ekki rétt og leikmaður nr. 12 í liði kæranda skráður með einni villu meira en hún var með í raun. Þetta leiddi til þess að hún var útilokuð frá leiknum í fjórða leikhluta vegna þess að hún var samkæmt hinni endurrituðu skýrslu komin með fimm villur þegar hún í raun var með fjórar.“

„Einnig liggur fyrir að lið kæranda varð af vítaskotum sem liðið átti rétt á eftir að liðið var komið með skotrétt vegna villufjölda í liði kærða en upplýsingum um skotréttinn var einhverra hluta vegna ekki komið til dómara leiksins.“

Í greinargerð Þórs Ak er sagt frá því að vegna forfalla hafi þurft að manna ritaraborðið með öðru en leikmönnum meistaraflokks karla líkt og venjan er. Þar stendur einnig:  „Kærði taldi hins vegar og telur enn að umræddir aðilar séu þess fullfærir að vinna á ritaraborði þó þeir hafi alls ekki átt sinn besta dag í umræddum leik.“

Þórsarar segja í lagarökum sínum að til þess að endurtaka þurfi leik vegna mistaka starfsmanna leiksins verði mistökin að hafa verið mjög alvarleg eða að liggja fyrir yfirgnæfandi líkur á því að mistökin hafi ráðið úrslitum. Hvorugt þessara atriða eigi við í þessu atviki. Akureyringar fóru því fram á að kröfum Sauðkrækinga yrði vísað frá.

Í niðurstöðu aga- og úrskurðarnefndar segir: „Það er mat aga-og úrskurðarnefndar að framkvæmd hins kærða leiks var ekki með eðlilegu móti. Stiga- og villutalningu var áfátt og ljóst að allavega einn leikmaður kæranda var útilokaður frá þátttöku án þess að hafa brotið af sér nægilega oft. Hinsvegar er ekki um að ræða mjög alvarleg mistök né hefur verið sýnt fram að þau hafi með beinum hætti leitt til rangra úrslita. Er því kröfum kæranda í máli þessu hafnað.“

Það er því ljóst að úrslit leiksins munu standa en Sauðkrækingar eru ekki ánægðir með framkvæmd leiksins í Síðuskóla. Lýsingar Tindastólsmanna eru sannarlega athyglisverðar og ekki boðlegt fyrir 1. deild kvenna. Þessi nágrannalið mætast aftur þann 19. janúar næstkomandi í Síkinu á Sauðárkróki.

Nánar má lesa um niðurstöðu aga- og úrskurðarnefndar hér.

Fréttir
- Auglýsing -